Bestu íslensku vörumerkin 2020

Þann 25. febrúar var viðburðurinn “Bestu íslensku vörumerkin” haldin í fyrsta sinn og vann Meniga til verðlauna í sínum flokki! Þar sem þessi verðlaun eru ný af nálinni ákváðum við að skrifa stuttan pistil til þess að lýsa ferlinu á bak við verðlaunaafhendinguna.

Þann 25. febrúar 2021 fór verðlaunaafhending brandr fyrir Bestu íslensku vörumerkin fram í fyrsta sinn. Meniga vann til verðlauna sem besta vörumerkið á fyrirtækjamarkaði með 50 starfsmenn eða fleiri, en aðrar tilnefningar í sama flokki voru Marel, Nox medical, Controlant og Origo. Meniga er stolt af því að tilheyra þessum merka hópi, enda sterk vörumerki sem skara fram úr á sínu sviði. Alls voru veitt verðlaun í fjórum flokkum:

  • Fyrirtækjamarkaður (B2B) með starfsfólk vörumerkis 50 eða fleiri
  • Fyrirtækjamarkaður (B2B) með starfsfólk vörumerkis 49 eða færri
  • Einstaklingsmarkaður (B2C) með starfsfólk vörumerkis 50 eða fleiri
  • Einstaklingsmarkaður (B2C) með starfsfólk vörumerkis 49 eða færri

Eins og áður nefndi er þetta í fyrsta sinn sem þessi verðlaun eru veitt. Með verðlaununum vill brandr efla umræðu um mikilvægi góðrar vörumerkjastefnu á Íslandi.

Þar sem þessi verðlaun eru ný af nálinni þá ákváðum við að skrifa stuttan pistil til þess að lýsa ferlinu á bak við verðlaunin og hvað þessi viðurkenning þýðir fyrir Meniga.

Tilnefning

Ferlið hófst með því að vörumerki sem talin eru hafa skarað fram úr á árinu voru tilnefnd. Neytendum gafst tækifæri á að tilnefna vörumerki sem þau töldu eiga sigurinn skilið á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, en valnefnd brandr tók lokaákvörðun um hvaða vörumerki hlutu tilnefningu í hverjum flokki. Þá var einkum litið til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Valnefndin samanstóð af 54 sérfræðingum úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu en þar má m.a. nefna framkvæmdastjóra, fjárfesta, háskólakennara og markaðsstjóra frá hinum ýmsu fyrirtækjum.

Gagnaöflun

Haft var samband við þau fyrirtæki sem hlutu tilnefningu til þess að staðfesta þátttöku. Þátttaka var gjaldfrjáls en þó þurftu fyrirtækin að leggja svolítið á sig fyrir þáttöku. Samkvæmt brandr byggir mat á góðum vörumerkjum á staðfærslu en staðfærsla er það markaðsstarf sem aðgreinir vörumerki frá keppinautum. Dómnefnd lagði mat sitt á staðfærslu vörumerkis með því að byggja á fjórum þáttum; aðgreiningu vörumerkis á markaði, markaðshlutun, sjálfbærni og umhverfi og loks ímynd og skynjun viðskiptavina.

Til þess að mæla ímynd og skynjun var öllum tilnefndum vörumerkum gert að senda út staðlaða viðhorfskönnun á viðskiptavini sína. Niðurstöður úr þessari könnun voru notaðar til að reikna út brandr vísitöluna en hún mælir þær tengingar við vörumerki sem skipta mestu máli í hugum neytenda. Einnig gerir vísitalan brandr kleift að bera saman styrkleika vörumerkja á staðlaðan hátt.

Auk vísitölunnar þurftu tilnefnd vörumerki að skila af sér kynningu á vörumerkinu. Þar var farið nánar í þá þætti sem minnst var á hér að ofan. Í hlutanum Markaðshlutun áttu vörumerki að fjalla um það hvernig það skiptir viðskiptavinum í markhópa og hvernig markaðssetning væri til mismunandi hópa. Í kaflanum Aðgreining voru gefnar upplýsingar um það hvað gerði vörumerkið einstakt og hvernig vörumerkið væri frábrugðið keppinautum. Í Samfélag og umhverfi átti fyrirtækið að gera grein fyrir því á hvaða hátt vörumerki þess væri samfélagslega ábyrgt og hvaða skref fyrirtækið tæki í átt að sjálfbærni og umhverfisvernd. Að lokum áttu fyrirtækin að gera grein fyrir Viðskiptamódeli sínu.

brandr leggur mikla áherslu á staðlaða aðferðarfræði og því voru ítarlegar leiðbeiningar gefnar svo valnefnd gæti lagt mat á efni frá ólíkum vörumerkjum.

Sýnishorn úr kynningu Meniga

Verðlaunaafhending

Þegar gagnaöflun var lokið fór áðurnefnd valnefnd brandr yfir umsóknirnar. Umsóknirnar samanstóðu af vístölunni og kynningu frá fyrirtækjunum sem nefnd var hér að ofan en einnig var send út örstutt könnun á 2.000 manna óháðan viðhorfshóp brandr.

Þann 25. febrúar var svo verðlaunaafhending Bestu íslensku vörumerkjanna 2020 haldin hátíðleg í stafrænni útsendingu þar sem Þorsteinn Bachmann leikari veitti viðurkenningar fyrir hvern flokk. 66° Norður og Omnom hlutu sigur á einstaklingsmarkaði en Meniga og Alfreð hrepptu verðlaunin á fyrirtækjamarkaði. Í lok afhendingarinnar tóku fulltrúar sigurvegara þátt í pallborðsumræðu um mikilvægi vörumerkja þar sem Viggó Ásgeirsson, framkvæmdarstjóri Meniga á Íslandi, tók þátt fyrir hönd Meniga.

“Lykillinn að góðu vörumerki eru góðar vörur. Meniga hefur lagt gríðarlegan metnað í að byggja upp þjónustu við fyrirtæki með framúrskarandi markaðsgreiningum og vildarkerfi. Verðlaunin Besta vörumerkið á fyrirtækjamarkaði er viðurkenning á því frábæra starfi sem vöruhönnunar-, sölu-, þróunar- og markaðsteymi okkar hafa unnið á undanförnum árum í þágu íslenskra fyrirtækja og neytenda,”

Viggó Ásgeirsson framkvæmdastjóri Meniga á Íslandi.

Eins og fram kom í upphafi er markmið brandr að efla umræðu um vörumerki á Íslandi. Dr. Friðrik Larsen, framkvæmdarstjóri brandr kom orðum að því á verðlaunaafhendingunni að þegar minnst er á vörumerki hugsi fólk vanalega einungis um myndmerkið, eða logo-ið. Að mati Meniga hefur brandr tekist ætlunarverk sitt að draga athygli að mikilvægi stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar og tekur Meniga þessu framtaki fagnandi.

„Það að vanrækja vörumerkið sitt er eins og að vanrækja ungmennastarfið í íþróttum, þú verður að byggja undir til að ná árangri til framtíðar. Við ættum ekki landslið í íþróttum eða landslið í tónlist heldur ef við hefðum ekki lagt áherslu á ungmennastarfið,“ segir Viggó að lokum.

...

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.