Íslandsbanki innleiðir Carbon Insight lausn Meniga

Síðastliðinn nóvember fjölluðum við um nýja umhverfisvöru Meniga, Carbon Insight. Tilgangur vörunnar er að færa neytendum innsýn inn í…

Jón Heiðar Ragnheiðarson, vörustjóri Carbon Insight

Hvað varð til þess að þú sóttir um vinnu hjá Meniga?

Ég er svo lánsamur að þekkja gott Meniga fólk sem ég fór að spjalla við þegar ég hætti hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Iceland Travel fyrir 2–3 árum síðan. Stafræn vöruþróun hefur lengi verið viðfangsefni mitt og á þeim grunni hófst samtal sem endaði með því að mér var boðið starf hér í vöruteymi Meniga. Vörumarkaðssetning var mitt aðalverkefni í upphafi en Carbon Insight á núna hug minn mestallan.

Ef þú ættir að lýsa Meniga sem vinnustað í þremur orðum, hvaða orð yrðu fyrir valinu?

Vinnustaðurinn Meniga er alþjóðlegur, krefjandi og skemmtilegur.

Hver var kveikjan að Carbon Insight vörunni?

Fyrir um einu og hálfu ári síðan fórum við að taka eftir því að sífellt fleiri bankar í viðskiptavinahópi okkar voru að leita eftir umhverfislausnum eða voru að tilkynna um aukna áherslu á umhverfismál í starfsemi sinni. Það voru líka skýr merki um vaxandi áhyggjur fólks um allan heim af umhverfismálum og hamfarahlýnun. Ekkert lát er á þeirri þróun.

Við settum því á laggirnar öflugt teymi sérfræðinga, gagnavísindafólks, viðmótshönnuða og forritara sem lagðist yfir hvernig mætti úfæra þessa lausn.

Það blasti við að við að við gátum byggt á styrkleikum Meniga sem liggja meðal annars í úrvinnslu og framsetningu á bankagögnum. Með því að tvinna saman færslugögn og loftslagsvísindi getum við sýnt fólki áætlað kolefnisspor einkaneyslu þess með sjálfvirkum hætti. Einnig má nota lausn Meniga til að sýna fólki hvernig kolefnisspor þess hefur þróast í gegnum tíðina, hvernig það skiptist eftir útgjaldaflokkum og hjálpa fólki til að grípa til aðgerða. Það má gera með því að taka áskorunum að minnka óumhverfisvæna neyslu eða með því að kolefnisjafna einkaneysluna.

Okkur var ljóst að við þyrftum liðsinni vísindafólks á sviði loftslagsvísinda til að gera útreikninga okkar á kolefnisspori einkaneyslu fólks eins nákvæma og hægt er. Dr. Jukka Heinonen, prófessor hjá Háskóla Íslands, er vísindaráðgjafi verkefnisins. Auk hans er fólk frá World Resources Institute, Accountancy Europe og UNFCCC í ráðgjafaráði Meniga í umhverfismálum. Endurskoðunarfyrirtækið EY vinnur svo að því að votta útreikninga okkar og aðferðarfræði.

Hvernig getur Carbon Insight gagnast notendum?

Eins og kemur svo vel í fram í bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, er erfitt fyrir fólk að skilja loftslagskrísuna, umfang hennar og afleiðingar sem eru að koma fram á ógnarhraða. Markmiðið með Carbon Insight er að valdefla fólk í umhverfismálum og auðvelda því að grípa til einfaldra og áhrifaríkra aðgerða. Hingað til hefur áhersla okkar verið að gera fjármál skiljanleg og aðgengileg og nú viljum við gera hið sama í umhverfismálum. Markmið Meniga er að bæta fjárhagslega heilsu fólks. Það er svo magnað að þetta smellpassar við þá viðleitni okkar að valdefla fólk í umhverfismálum. Að vera sjálfbær í fjármálum sínum helst í hendur við að vera sjálfbær í umhverfismálum.

Hvenær mun Carbon Insight vera innleitt á meniga.is og í Meniga appið?

Líklega munu Meniga notendur sjá Carbon Insight í Meniga appinu núna í sumar.

Hvernig geturðu séð fyrir þér að eftirspurn neytenda eftir grænum fjármálalausnum þróist á næstu árum og hvernig mun Carbon Insight mæta þeirri eftirspurn?

Fjármálastarfsemi sem gengur út að vera í sátt við umhverfi og samfélag er að vaxa hratt. Þetta gerist samhliða því að almenningur er að vakna til vitundar um umhverfismál.

Kolefnisspor af útgjöldum heimilisins

Bankar gegna lykilhlutverki í því að sýna fólki upplýsingar um áhrif einkaneyslu þess á umhverfið enda búa þeir yfir færslugögnum sem segja ansi mikið um neysluvenjur okkar. Bankar hafa að mínu mati einstakt tækifæri til að þróa og koma á framfæri grænum fjármálaafurðum sem geta fjármagnað þá miklu umbreytingu sem þarf að eiga sér stað yfir í sjálfbært samfélag.

Meniga mun taka þátt í þessari þróun með því að gera mælingar á kolefnisspori einkaneyslu nákvæmari, bæði með því að taka inn fleiri gögn og með því að nýta stöðugt nýjustu og bestu vísindaniðurstöður á sviði loftlagsvísinda. Enn fremur munum við að sjálfsögðu halda áfram að þróa Meniga kerfið til að gera notendaupplifun þeirra sem vilja vera umhverfisvænir sem allra besta.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlega stórum áskorunum í umhverfismálum og það getur verið erfitt fyrir fólk og fyrirtæki að átta sig á hvernig á að vera umhverfisvænni. Mér finnst þá gott að muna eftir orðum vinar míns Miguel Naranjo sem starfar hjá UNFCCC, þeirri stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að loftlagsmálum, en hann situr í ráðgjafaráði Meniga í umhverfismálum: “Don’t get paralysis by analysis”. Verkefnið er stórt en með því að átta sig á því skref fyrir skref hvernig hægt er að stöðugt gera betur næst raunverulegur árangur. Þannig vil ég nálgast þetta allt saman.

Hér fyrir neðan má nálgast fyrirlestur sem Jón Heiðar hélt með Agli Vignissyni á haustráðstefnu Advania.

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.