Meniga á alþjóðavettvangi

Áslaug S. Hafsteinsdóttir, framkvæmdarstjóri innleiðingarsviðs Meniga, og hennar teymi hafa sannarlega átt viðburðarríkt ár. Árið 2020 náði fjöldi erlendra banka sem inleiddi lausnir Meniga nýjum hæðum, en í tilefni af því tókum við viðtal við Áslaugu og fengum hana til að veita meiri innsýn í starfsemi Meniga á alþjóðavettvangi.

Eins og margir vita var Meniga stofnað í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Hrunið hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir fólkið í landinu og olli mikilli óvissu í sambandi við heimilisfjármál. Meniga var því stofnað með þeirri hugsjón að hjálpa Íslendingum að ná aftur fjárhagslegu öryggi. Auk þess að bjóða upp á gjaldfría lausn fyrir Íslendinga á Meniga.is vann Meniga náið með þremur stærstu bönkum Íslands: Íslandsbanka, Landsbankanum og Arion banka. Bankarnir höfðu mikinn áhuga á að hjálpa fólki með heimilisfjármálin og gerðu því lausn Meniga aðgengilega í gegnum netbanka.

Það kom þó fljótt í ljós að fleiri en Íslendingar þurftu á aðstoð að halda við það að halda utan um heimilisbókhaldið og enn fremur að gera það skemmtilegra. Meniga vakti þess vegna fljótt mikla athygli á heimsvísu. Í kjölfarið fóru alþjóðlegar fjármálastofnanir að fjárfesta í lausn Meniga til að bjóða notendum sínum upp á yfirsýn yfir fjármálin. Hugbúnaður Meniga hefur nú verið innleiddur hjá yfir 160 fjármálastofnunum og er notaður af rúmlega 90 milljónum manns í meira en 30 löndum.

Árið 2020 var viðburðarríkt ár fyrir okkur hjá Meniga, en við innleiddum lausnir okkar í 9 bönkum í 18 löndum og var það nýtt met hjá innleiðingarteyminu. Við erum einnig gríðarlega stolt af því að tilkynna að nú nýlega fóru lausnir Meniga í loftið hjá alþjóðlega bankanum UniCredit í Slóveníu, Slóvakíu og Ítalíu.

Til þess að veita meiri innsýn í þessar tilkynningar ræddum við við Áslaugu S. Hafsteinsdóttur, framkvæmdarstjóra innleiðingarsviðs Meniga. Lestu áfram til þess að fræðast um starfsemi Meniga á alþjóðavettvangi.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að vinna hjá Meniga?

Ég er með bakgrunn í upplýsingatæknigeiranum og vann hjá Landsbankanum við áhættustýringu áður en ég byrjaði hjá Meniga. Ég þekkti stofnendur Meniga frá fyrri tíð og fylgdist grannt með þegar þeir stigu sín fyrstu skref inn í heim fjártækninnar. Þegar Meniga var við það að skrifa undir fyrsta erlenda samninginn árið 2011 ákvað ég að slá til og tók þátt í ævintýrinu með þeim. Við vorum fimm starfsmenn þegar ég byrjaði að meðtöldum stofnendum og skrifstofan var skólastofa í gamla húsnæði Háskólans í Reykjavík í Ofanleitinu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag erum við með skrifstofur í Turninum í Kópavogi, London, Varsjá, Stokkhólmi, Singapore, Barselóna og New York og um 150 starfsmenn af ýmsum þjóðernum.

Hvernig er vinnudagurinn samsettur hjá framkvæmdarstjóra innleiðingarþjónustu?

Sem framkvæmdastjóri innleiðingarþjónustu ber ég ábyrgð á afhendingu á hugbúnaði Meniga til allra viðskiptavina sem og þjónustu við lausnina eftir hún er komin í loftið. Megin þunginn liggur í samstarfi við erlenda banka og fjármálastofnanir. Innan innleiðingardeildarinnar starfa fimm alþjóðleg teymi við að pakka vörunum inn og innleiða í rekstrarumhverfi viðskiptavina okkar ásamt einu þjónustuteymi sem vinnur náið með samstarfsaðila á Spáni við að vakta þjónustuborð allra viðskiptavina. Innleiðingarteymin eru í daglegum samskiptum við hugbúnaðar- og tæknifólk bankanna en líka við viðskiptahliðina sem sér um að skilgreina sýn bankans á hvernig vörur Meniga birtast og knýja nýjar þjónustur í stafrænum lausnum.

Hluti af innleiðingateyminu í kúnnaferð á Indlandi

Við erum að staðaldri að innleiða hugbúnaðinn okkar hjá um 20 viðskiptavinum hverju sinni í stórum og smáum innleiðingarverkefnum. Mitt hlutverk felst fyrst og fremst í því að tryggja að innleiðingar- og þjónustuteymin hafi réttan stuðning til að sinna sinni vinnu, leysa úr málum sem koma upp og greiða götu teymanna. Við leggjum mikla áherslu á skilvirkni og lausnamiðaða nálgun í samstarfi okkar við stórar fjármálastofnanir því við búum yfir sveigjanleika sem stór innleiðingarteymi innan bankanna eiga erfiðara með.

Hvað felst í þeirri þjónustu sem Meniga býður erlendum bönkum upp á?

Kjarni þeirrar þjónustu sem Meniga býður uppá er að safna ópersónugreinanlegum færslugögnum úr margvíslegum bakvinnslukerfum bankanna og gera þau aðgengileg á einum stað. Þegar færslurnar eru færðar yfir í Meniga lausnina eru þær auðgaðar með flokkun sem segir til um hvers eðlis færslan er, t.d. Matarinnkaup eða Rekstur á bíl. Flokkaðar færslur eru undirstaðan að margs konar virkni sem hugbúnaður Meniga býður uppá.

Lausn Meniga er ekki síður mikilvæg fyrir marga af erlendum viðskiptavinum okkar við að gera færslugögn aðgengileg því bakvinnslukerfi stórra banka eru oft á tíðum lokuð stórtölvukerfi. Á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem gögn eru í lykilhlutverki hentar Meniga lausnin sérlega vel við vinnslu, greiningu og nýtingu færslugagna.

Dæmigert innleiðingarverkefni tekur um 6–9 mánuði þar sem unnið er náið með innleiðingarteymi bankans. Stór hluti vinnunnar felst í kortlagningu á gögnum bankans og víðtækum prófunum sem snúa að því að innleiða, staðfesta og tryggja uppitíma og afköst kerfisins fyrir milljónir endanotenda. Eftir að lausnin er farin í loftið sjáum við um sólarhringsvöktun á þjónustuborðum allra viðskiptavina. Stórir alþjóðlegir bankar sem eru með milljónir notenda gera stífar kröfur til uppitíma lausnarinnar og við erum því með skýra verkferla til að tryggja samfelldan rekstur.

Er eitthvað spennandi á döfinni hjá innleiðingardeildinni?

Nú á nýju ári erum við að hefja samstarf við fjóra banka í Mið-Austurlöndum sem er mjög spennandi. Við höfum í þó nokkur ár unnið með banka í Dubaí en nú hafa bæst við viðskiptavinir í Kúveit, Egyptalandi og Sádí-Arabíu. Það er alltaf áhugavert og lærdómsríkt að vinna með viðskiptavinum frá öðrum menningarsvæðum, það víkkar sjóndeildarhringinn. Meniga er líka að stíga sín fyrstu skref á sviði SaaS (Software as a Service) og við erum að vinna að spennandi verkefni með einum að íslensku bönkunum á því sviði.

Hvernig gætir þú séð fyrir þér starfsemi Meniga á alþjóðavettvangi eftir 10 ár?

Mikilvægi gagna og úrvinnsla þeirra mun aukast jafnt og þétt á næstu 10 árum og þar er Meniga í lykilhlutverki. Við erum leiðandi á sviði Personal Finance Management á alþjóðavettvangi og stefnum að því að halda áfram að styrkja stöðu okkar með nýtingu færslugagna fyrir bæði bankana og viðskiptavini þeirra. Hlutverk og form bankaþjónustu er að breytast hratt og Meniga lausnin styður við og knýr slíkar breytingar í gegnum stafrænar lausnir. Til að mynda er aðgengi að farsímaþjónustu að breytast í heiminum og afskekkt svæði í Asíu og Afríku eru nú komin með farsímadreifikerfi og aðgang að ódýrum farsímum sem opnar aðgang að stafrænni fjármálaþjónustu fyrir milljónir manna. Hér eru gríðarleg sóknarfæri fyrir Meniga.

Við erum nú þegar að stíga okkar fyrstu skref í að samþætta fjármálafærslur við kolefnisspor þeirra og sjáum mikla möguleika á að útvíkka þá samþættingu og gera endanotendum kleift að grípa til aðgerða við að kolefnisjafna sína neyslu. Á næstu árum munum við halda áfram að vinna að slíkri samþættingu við ófjárhagsleg gögn og gera bönkum og viðskiptavinum þeirra kleift að verða hreyfiafl til góðra verka.

...

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.