Meniga verðlaunað sem besta vörumerkið á fyrirtækjamarkaði

Í síðustu viku hreppti Meniga verðlaun sem besta vörumerki Íslands á fyrirtækjamarkaði úr hópi fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri…

Í síðustu viku hreppti Meniga verðlaun sem besta vörumerki Íslands á fyrirtækjamarkaði úr hópi fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri. Auk Meniga voru fyrirtækin Marel, Nox medical, Origo og Controlant tilnefnd í þessum flokki. Sigurinn er mikill heiður fyrir Meniga og frábær viðurkenning á gæðum fyrirtækjaþjónustu okkar.

Notendur Meniga verða venjulega ekki mikið varir við fyrirtækjaþjónustuna enda er Meniga einna þekktast fyrir notendamiðaða heimilisbókhaldslausn. Ef þú sem notandi hefur þó einhvern tíma nýtt þér endurgreiðslutilboð Meniga, þá er það tilboð afrakstur vinnu söludeildarinnar okkar sem annast fyrirtækjaþjónustuna.

Mikill metnaður er lagður í vöruþróun og nýsköpun til að bregðast við síbreytilegum þörfum viðskiptavina. Dæmi um slíka þróun er nýjasta vara fyrirtækjaþjónustunnar, Ársskýrsla Markaðsvaktar Meniga, en hún er svar við eftirspurn minni fyrirtækja sem telja sig ekki þurfa mánaðarlegar skýrslur. Hún er mælitæki sem færir fyrirtækjum upplýsingar um markaðshlutdeild þeirra, þróun markaðarins og keppinauta, viðskiptavinatryggð og árangur einstakra markaðsherferða eins og endurgreiðslutilboða.

Til þess að skoða nánar hvað felst í fyrirtækjaþjónustu Meniga tókum við örstutt viðtal við Hannes Rúnar Hannesson, sölustjóra Meniga, og báðum hann að útskýra starfsemi söludeildarinnar.

Hver er bakgrunnur þinn áður en þú hófst störf hjá Meniga?

Ég sleit barnsskónum undir leiðsögn góðs fólks hjá Creditinfo. Ég vann þar í tæplega 10 ár og bróðurpartinn sem sölu- og þjónustustjóri Fjölmiðlavaktar Creditinfo. Þar kynntist ég vinnu með gögn og hvernig hægt er að búa til virðisaukandi upplýsingar úr ópersónugreinanlegum gögnum. Ég ákvað svo að skella mér í MBA nám við Háskólann í Reykjavík og í framhaldi af útskrift færði ég mig yfir til Meniga.

Hvað heillaði þig við að vinna hjá Meniga?

Meniga er fyrirtæki sem ég hafði lengi haft augastað á. Ég kannaðist aðeins við einn stofnenda Meniga sem og nokkra starfsmenn en hafði líka verið notandi Meniga kerfisins í mörg ár. Ég hafði því einhverja hugmynd um þá vinnu sem fór þar fram sem mér fannst mjög heillandi en sömuleiðis að þar væri mikið af hæfileikaríku fólki sem væri spennandi að vinna með. Það hefur svo sannarlega komið á daginn enda er hér bæði mikið af frábæru fólki og hvetjandi starfsumhverfi.

Starfsfólk Meniga fagnar verðlaunum

Hvað felst í fyrirtækjaþjónustunni sem Meniga býður upp á?

Fyrirtækjaþjónustan okkar er þrískipt. Fyrst ber að nefna þjónustu við þrjá stóru viðskiptabankana á Íslandi. Við styðjum þá með hugbúnaði sem hjálpar bönkunum að veita betri þjónustu til sinna viðskiptavina, hvort sem það er heimilisbókhaldslausnin okkar eða fríðindakerfið Fríða hjá Íslandsbanka. Þessi hluti er nokkuð afmarkaður og er stýrt af Viggó Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Meniga á Íslandi.

Dagleg starfsemi fyrirtækjaþjónustunnar snýr svo annars vegar að Fríðindakerfinu okkar og hins vegar að Markaðsvaktinni. Fríðindakerfið, sem við rekum bæði í Meniga og í Fríðu hjá Íslandsbanka, er einstakt snertilaust tilboðskerfi sem skapar sameiginlegan ávinning fyrirtækja og einstaklinga. Fyrirtæki geta markaðssett til viðskiptavina sem hafa ekki verið í viðskiptum við þau undanfarin misseri og einstaklingar fá skemmtileg tilboð sem miðast við þeirra neysluhegðun. Það sem er sérstaklega ánægjulegt við þetta kerfi er að viðskiptavinir þurfa ekki að óska sérstaklega eftir afslætti við kaup á vöru, heldur einungis virkja tilboðið í Meniga eða Fríðu, versla eins og venjulega og fá svo afsláttinn endurgreiddan í næsta mánuði.

Markaðsvaktin gefur fyrirtækjum á einstaklingsmarkaði möguleika á að rýna í markaðshlutdeild sína, og aðra mikilvæga mælikvarða, gagnvart keppinautum á markaði. Þetta er einstök vara á Íslandi sem byggir á ópersónugreinanlegum raungögnum um kauphegðun yfir 35.000 einstaklinga. Með því að nýta þessar upplýsingar geta fyrirtæki öðlast betri sýn í eigin rekstur og náð mikilvægu samkeppnisforskoti á sínum markaði.

Geturðu lýst fyrir lesendum okkar venjulegum degi hjá sölustjóra?

Blessunarlega er starfið mjög fjölbreytt og varla til nokkuð sem heitir venjulegur dagur, sem er hluti af því sem gerir það svo skemmtilegt. Þó eru nokkur regluleg verkefni eins og stöðufundir með viðskiptastjórum og hagaðilum innan og utan fyrirtækisins, þróun greininga og yfirferð þeirra með viðskiptavinum og eftirfylgni með verkefnum, bæði tengd rekstri og vöruþróun. Starfinu fylgja einnig mikil samskipti við viðskiptavini sem er bæði ánægjulegt og mikilvægt fyrir okkur til að tryggja ánægju þeirra og að við séum að þróast í rétta átt.

Hefur COVID-19 haft einhver áhrif á ykkar starfsemi? Ef svo er, hvaða?

Já, það er ekki hægt að segja annað en að áhrifin hafi verið talsvert mikil en ekki endilega neikvæð. Þróun rafrænna samskipta hafa veitt okkur betri tækifæri til að vera í samskiptum við viðskiptavini sem áttu erfitt með að hitta okkur í persónu. Þó ég voni sannarlega að ég geti hitt okkar viðskiptavini í persónu um leið og við náum betri tökum á faraldrinum, þá erum við nú með “nýja” samskiptaleið sem opnar fyrir okkur áður lokaðar dyr.

Hvað varðar viðskiptalífið, þá er alveg ljóst að sér í lagi samkomutakmarkanir hafa haft mikil áhrif á starfsemi margra viðskiptavina okkar og því samstarfsmöguleika okkar á þeim tímum. Að sama skapi hafa þó skapast tækifæri í auknu samstarfi með netverslunum og ég verð að hrósa íslenskum fyrirtækjum hvernig þau hafa brugðist við þessum áskorunum síðastliðna mánuði. Einnig myndaðist tækifæri fyrir okkur í fækkun ferðamanna þar sem íslensk fyrirtæki þurftu að höfða meira til íslenskra viðskiptavina. Þar nýtist einmitt fríðindakerfi okkar og Íslandsbanka einstaklega vel. Sömuleiðis byggir Markaðsvaktin aðeins á innlendri kauphegðun og gefur því sérstaklega skýra mynd af markaðnum þegar erlend kortavelta er eins lítil og hefur verið.

Nýjasta varan ykkar, Ársskýrslan, er eins og áður var nefnt viðbragð við eftirspurn fyrirtækja. Geturðu lýst því hvað felst í vörunni og hvernig hún annar eftirspurn?

Við erum mjög spennt fyrir því að Ársskýrslan sé loks að koma á markað en hún leysir í raun tvö vandamál. Annars vegar gagnast hún núverandi viðskiptavinum sem kaupa mánaðarlegar skýrslur hjá okkur. Ársskýrslan veitir þeim tækifæri til að líta yfir lengra tímabil og fá þannig betri heildarmynd af árangri undanfarins ár þegar kemur að þróun í sölu og markaðhlutdeild. Hins vegar gagnast hún fyrirtækjum þar sem ekki er þörf á mánaðarlegum skýrslum, hvort sem það er vegna smæðar eða vegna þess hversu stöðugur markaðurinn er. Ársskýrslan verður því góður valkostur fyrir þau fyrirtæki enda er þeim engu minna mikilvægt að þekkja stöðu sína á markaðnum. Fyrirtæki geta bæði nýtt hana til þess að líta yfir farinn veg og til þess að búa til gagnamiðaðar áætlanir á sölu- og markaðsstarfi fram í tímann.

Þú getur nú pantað Ársskýrsluna á sérstöku kynningarverði. Hefur þú áhuga á að nýta þér fyrirtækjaþjónustu Meniga? Endilega hafðu samband við söluteymið okkar á sala@meniga.is.

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.