Ný og endurbætt vefsíða Meniga

Ný vefsíða Meniga vann til verðlauna sem besti meðalstóri fyrirtækjavefurinn á Íslensku Vefverðlaununum! Í tilefni þess tókum við viðtal við Hlyn Hauksson, verkefnastjóra vefsíðunnar, og spurðum hann um mikilvægi vefsíðna fyrir fyrirtæki og margt fleira.

Í upphafi þessa árs var gefin út ný og endurbætt vefsíða Meniga. Sem hugbúnaðarfyrirtæki á sviði fjártækni teljum við mikilvægt að halda uppi notandamiðaðri og efnismikilli heimasíðu en því lögðum við mikla áherslu á gagnsæi og upplýsingagjöf um alla starfsemi Meniga, á einstaklinga- og fyrirtækjamarkaði sem og á alþjóðavettvangi.

Nú á dögunum hlaut þessi nýja vefsíða Meniga verðlaun á Íslensku Vefverðlaununum 2020 sem besti meðalstóri fyrirtækjavefurinn við mikil fagnaðarlæti þeirra sem að verkefninu komu. Þetta er í fyrsta sinn sem heimasíðan meniga.is vinnur til verðlauna á Íslensku vefverðlaununum, en Meniga hefur áður unnið verðlaunin Besta vefkerfið og App ársins.

Öll hönnun viðmóts og myndvinnsla var unnin af hönnuðum Meniga. Sömuleiðis voru öll efnistök og textavinna í höndum starfsfólks Meniga en uppsetning vefsins var í höndum bresku vefstofunnar WAG.

Verkefnastjóri nýja vefsins er Hlynur Hauksson, viðskiptastjóri Meniga á Íslandi. Í tilefni af sigri vefsíðunnar á Íslensku Vefverðlaununum þótti okkur kjörið að ræða aðeins við hann um verkefnið og hans vinnu hjá Meniga.

Hlynur Hauksson, verkefnastjóri nýrrar vefsíðu Meniga
Hlynur Hauksson, verkefnastjóri nýrrar vefsíðu Meniga

Hver er bakgrunnur þinn áður en þú byrjaðir að vinna hjá Meniga?

Ég byrjaði að vinna í Ölgerðinni með skóla, fyrst í söludeild og síðan í markaðsdeild. Eftir að hafa lokið mastersnámi fékk ég fastráðningu sem vörumerkjastjóri Pepsi sem ég sinnti í eitt ár áður en ég flutti til Barcelona. Einu barni ríkari kom ég heim og byrjaði að vinna sem verkefnastjóri Aur appsins en við þau verkefni fékk ég brennandi áhuga á fjártæknibransanum.

Hver er þín skemmtilegasta minning frá Meniga?

Ætli það hafi ekki fyrstu þrír dagarnir mínir í starfi. Ég fór upp í flugvél með öllu fyrirtækinu á árshátíð til Póllands. Ég þekkti engan, ruglaði öllum andlitum og nöfnum saman. Annars var mér ótrúlega vel tekið svo þetta endaði á að vera frábær leið til þess að kynnast öllum.

Hversu mikilvæg myndir þú segja að góð vefsíða sé fyrir fyrirtæki?

Góð vefsíða skiptir klárlega máli en það að búa til góða vefsíðu þarf ekki að vera flókið verkefni. Tilgangur vefsíðunnar þarf að vera skýr og framsetning þess efnis sem á við aðgengileg. Ef þessir hlutir eru í lagi þá getur vefurinn nýst fyrirtækjum gríðarlega vel við að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.

„Hönnun vefsins er falleg og vingjarnleg. Skemmtilegar teikningar lífga upp á vefinn á smekklegan hátt. Efnið er aðgengilegt og tónn texta vel úthugsaður. Flottur vefur sem er hraður og þægilegt að nota“

Umsögn dómnefndar Íslensku Vefverðlaunanna um nýjan vef Meniga.

Hvert var markmiðið með endurnýjun vefsíðunnar?

Það var virkilega gaman að lesa umsögn dómnefndar því hún fer ansi vel yfir lang flest þeirra atriða sem við höfðum í huga við uppbyggingu síðunnar. Að öðru leyti átti vefurinn að veita einstaklingum og fyrirtækjum yfirgripsmeiri og ítarlegri upplýsingar um starfsemi Meniga á Íslandi. Markhópur Meniga á Íslandi eru einstaklingar og fyrirtæki.

Þeir einstaklingar sem vilja skrá sig inn í Meniga í vafra eiga auðvelt með að sjá þann valmöguleika um leið og komið er inn á síðunna.

Á forsíðunni geta einstaklingar sótt almennar upplýsingar um þjónustu Meniga ásamt meiri upplýsingum um virkni sameiginlegs fríðindakerfis Meniga og Íslandsbanka. Á næstu undirsíðu eru upplýsingar fyrir fyrirtæki um bæði fríðindakerfið og markaðsskýrslur Meniga. Þessar tvær vörur þurftu meiri áherslu og aukinn sýnileika á vefnum og okkur finnst hafa tekist vel til. Í dag getum við notað meniga.is sem stuðningstól í sölu því síðan segir frá öllum þeim kostum og ávinningum sem vörurnar okkar geta veitt samstarfsaðilum Meniga.

Að lokum fannst okkur mikilvægt að fólk gæti sótt sér frekari upplýsingar í “Um okkur” um þá frábæru alþjóðlegu vegferð sem Meniga er á. Það vita ekki allir að Meniga er með starfsstöðvar í 7 löndum og u.þ.b. 100 milljón notendur víðs vegar um heiminn.

Hvað felst í ferlinu á bak við Íslensku vefverðlaunin og hvað þýðir sigurinn fyrir Meniga?

Í raun var frábær viðurkenning að fá tilnefningu því það eru rosalega margir á Íslandi að gera flotta hluti í vefmálum og sérstaklega í flokknum sem við vorum tilnefnd í. En annars eru verðlaunin áminning um það hversu lánsöm við erum með starfsfólk. Öll hönnun, framsetning, textavinna og í raun öll hugmyndarvinna var unnin af frábæru teymi innanhúss. Auðvitað má ekki gleyma bresku vinum okkar í WAG sem stóðu sig einnig mjög vel.

...

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.