Topp 5 mest lesnu bloggin árið 2021

Nú þegar 2021 er að líða undir lok er gaman að rifja upp árið og sjá hvað stóð upp úr síðustu 12 mánuði. Þrátt fyrir það að heimsfaraldurinn hélt áfram að hafa gríðarleg áhrif á atvinnulífið höfðum við hjá Meniga mörgu að fagna á undanförnu ári.

Meniga fékk þónokkrar viðurkenningar á árinu, m.a. sem Besta íslenska vörumerkið 2020 á fyrirtækjamarkaði hjá vörumerkjastofunni brandr. Þess má til gamans geta að við erum einnig tilnefnd í sama flokki fyrir árið 2021. Við komumst einnig á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2021 og urðum hundraðasti viðskiptavinur jafnlaunalausnarinnar Justly Pay. Við tryggðum okkur aukna fjármögnun sem gerir okkur kleift að halda áfram nýsköpun okkar í fjártækni.

Í ár kynntum við nýja umhverfislausn til leiks, Carbon Insight, en Íslandsbanki var fyrstur banka til þess að innleiða þessa áhrifamiklu lausn í vor. Carbon Insight fór fljótt að vekja athygli utan landsteinanna og vann nýlega til verðlauna sem besta umhverfislausnin á hinum virtu Fintech Finance Awards.

Við hjá Meniga vorum einnig dugleg að skrifa og birta greinar á heimasíðu okkar árið 2021 — fleiri en síðustu þrjú árin þar á undan til samans. Hér fyrir neðan förum við stuttlega yfir topp 5 mest lesnu greinarnar á meniga.is árið 2021.

Fortuna Invest
Stofnendur Fortuna Invest: Rakel Eva, Rósa og Aníta Rut.

1. Fortuna Invest: 50/30/20 reglan

Það er óhætt að segja að athafnakonurnar hjá Fortuna Invest hafi komið inn með krafti árið 2021. Í byrjun sumars tókum við viðtal við einn meðlim Fortuna Invest þar sem við ræddum 50/30/20 regluna og hvernig hún getur nýst þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjárfestingum eða byrja að safna í varasjóð. Meginkostur við þessa reglu er sú að hún gerir ekki kröfu um það að neita sér um allan munað til að spara, en þá er ólíklegara að fólk gefist upp til lengri tíma.

Smelltu hér til að lesa allt um 50/30/20 regluna og hér til að fylgja Fortuna Invest á Instagram.

Hvað kostar að eiga börn?

2. Hvað kostar að eiga börn?

Í öðru sæti var grein sem við skrifuðum til stuðnings hlaðvarpsþáttar á vegum Leitarinnar að peningunum. Þar reyndu Hlynur Hauksson, viðskiptastjóri Meniga á Íslandi, og Gunnar Dofri Ólafsson, umsjónamaður þáttarins, að kryfja til mergjar hvað kostar að eiga börn með hjálp Markaðsvaktar Meniga. Út frá þessu viðfangsefni vöknuðu afar áhugaverðar samræður, m.a. um það hvernig önnur útgjöld breytast samhliða eins og bakarísmatur og húsgögn, sem og aðkomu áhrifavalda.

Þú finnur bloggið hér, en við mælum einnig með að hlusta á þáttinn í heild sinni.

Eyddum við peningunum okkar öðruvísi árið 2020?

3. Eyddum við peningunum okkar öðruvísi árið 2020?

Sú hefð hefur fest sig í sessi hjá okkur í Meniga að færa lesendum smá innlit í neyslumynstur samfélagsins á liðnu ári. Þar tökum við saman helstu útgjaldaliði og berum saman við árið á undan, en þar er oft hægt að sjá áhrif utanaðkomandi aðburða á einstaka fyrirtæki og/eða markaðinn í heild sinni. Það kemur sannarlega ekki á óvart að þessi greining fyrir árið 2020 prýði þriðja sætið yfir mest lesnu bloggin í ár enda var 2020 afskaplega óvenjulegt ár.

Í byrjun janúar munum við birta yfirlit fyrir árið 2021, en þangað til geta tilhlökkunarsamir lesendur Meniga skoðað yfirlitið fyrir 2020 hér.

Hlynur Hauksson

4. Ný og endurbætt vefsíða Meniga

Ný vefsíða Meniga hlaut titilinn „Besti meðalstóri fyrirtækjavefurinn“ á Íslensku Vefverðlaununum 2020 í ár við gríðarleg fagnaðarlæti þeirra sem að verkefninu komu. Í tilefni þess báðum við áðurnefndan Hlyn Hauksson, sem jafnframt var verkefnastjóri heimasíðunnar, um að segja okkur aðeins frá verkefninu.

Góð vefsíða skiptir klárlega máli en það að búa til góða vefsíðu þarf ekki að vera flókið verkefni. Tilgangur vefsíðunnar þarf að vera skýr og framsetning þess efnis sem á við aðgengileg. Ef þessir hlutir eru í lagi þá getur vefurinn nýst fyrirtækjum gríðarlega vel við að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri,“ — segir Hlynur um mikilvægi vefsíðna.

Smelltu hér til að lesa meira um Hlyn, vinnu hans hjá Meniga og nýju vefsíðuna.

Eldgosið í Geldingadölum
Ljósmyndari: Benóný Bertelsson

5. Sprengja í sölu útivistarbúnaðar vegna eldgoss

Eldgosið í Geldingadölum fór eflaust ekki fram hjá neinum enda reimuðu tugþúsundir Íslendinga á sig gönguskóna í mars og apríl til að berja gosið augum. Leiðin var ekki fyrir hvern sem er og mikilvægt var að vera vel búinn fyrir gönguna, en því þurftu margir að birgja sig upp hjá útivistarbúðum. Með hjálp ópersónulegra neyslugagna Meniga notenda gátum við veitt einstaka innsýn inn í áhrif eldgossins á útivistarmarkaðinn.

Þú getur skoðað þessa áhugaverðu greiningu hér. Ef þú hefur áhuga á því að vita meira um Markaðsvakt Meniga þá hvetjum við þig endilega til að hafa samband við söluteymið okkar.

...

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.