Hvað kostar að eiga börn?

Hvað kostar að eiga börn? Þessi spurning er meginviðfangsefnið í nýjasta þætti hlaðvarpsins Leitin að peningunum, en okkar eini sanni Hlynur Hauksson var viðmælandi Gunnars Dofra að þessu sinni. Með hjálp Markaðsvaktar Meniga reyndu þeir að finna svörin við því hvað kostar að eiga börn.

Hvað kostar að eiga barn? Þetta er spurning sem margir hafa velt fyrir sér en forðast að spyrja. Sumum þykir jafnvel óviðeigandi að spyrja þessarar spurningar. Við hjá Meniga teljum þó fjármálaumræðu af öllu tagi vera jákvæða og finnst afar áhugavert að velta því fyrir okkur hver áhrif barneigna séu á útgjöld og tekjur foreldra.

Þessi spurning er einmitt viðfangsefnið í nýjasta þættinum af Leitinni að peningunum, hlaðvarps sem er á vegum Umboðsmanns skuldara og í umsjón Gunnars Dofra ÓlafssonarHlynur Hauksson, viðskiptastjóri Meniga á Íslandi, var viðmælandi Gunnars Dofra að þessu sinni, en hann gat veitt einstaka innsýn inn í þetta málefni með hjálp Markaðsvaktar Meniga. Markaðsvaktin byggir á ópersónugreinanlegum neyslugögnum notenda Meniga og gerir okkur kleift að rýna í ákveðin neyslumynstur.

Í hlaðvarpinu ræða þeir félagar saman um það hvað kostar að eiga börn, hvaða áhrif barneignir hafa á tekjur mæðra og hvernig útgjöld tengd barneignum hafa breyst. Hér munum við birta gröfin og tölfræðina sem rædd voru í þættinum. Við mælum þó eindregið með því að hlusta á þáttinn fyrst en þú getur fundið hann hér.

Hlynur og Theodór, sonur hans

Breyting á útgjöldum í ákveðnum flokkum

Með hjálp markaðsvaktarinnar gátum við skoðað hvernig færslumynstur breytist á þeim tíma sem einstaklingar fá úthlutað frá fæðingarorlofssjóði. Eins og við er að búast breytast útgjöld mikið í aðdraganda og kjölfar barneigna. Foreldrar þurfa að jafnaði að fjárfesta í barnavagni, barnarúmi, skiptiaðstöðu, fötum og fleiru, en því er mikil aukning á færslum hjá slíkum búðum á þessum tíma. Einnig aukast færslur hjá húsgagnaverslunum sem og bakaríum, en bakkelsi kemur sér oft vel eftir andvökunætur. Á sama tíma lækka útgjöld í eyðsluflokkum á borð við áfengi, leigubíla og skemmtanalíf.

Því er ljóst að byrjunarkostnaður við barneignir er hár, sér í lagi ef foreldrar þurfa að kaupa allt nýtt úr kassanum. Á þessum tímum samfélagsmiðla og áhrifavalda er oft pressa á nýja foreldra að eiga „réttu“ hlutina fyrir barnið sitt. Því kaupa nýbakaðir foreldrar stundum hluti sem teljast ef til vill ekki nauðsynlegir, en það þekkti Hlynur vel á eigin skinni.

Markhópurinn, nýbakaðir foreldrar fyrsta barns, er mjög viðkvæmur. Áhrifavaldar og aðrir aðilar hvetja foreldra til að kaupa hluti sem þarf ekki að kaupa, en þeir gera það samt. Það er búið að búa til gerviþörf fyrir alls konar hluti.

Hlynur Hauksson

Sem betur fer geta flestir fengið eitthvað lánað eða gefins frá fjölskyldu eða vinum til þess að lækka kostnaðinn örlítið. Síðastliðin ár hafa fyrirtæki sem bjóða upp á notaðar barnavörur notið gríðarlegra vinsælda, en notaðar barnavörur eru bæði betri fyrir veskið og umhverfið.

Barnavörumarkaðurinn

Þrátt fyrir vinsældir nytjamarkaða hefur barnavörumarkaðurinn á Íslandi stækkað töluvert undanfarin ár. Ákveðin tímabil eru stærri fyrir barnavöruverslanir en önnur. Í ágúst þurfa foreldrar að kaupa ný skólaföt fyrir börnin sín þar sem þau hafa reglulega vaxið upp úr skólafötum síðasta árs. Á haustin þarf að kaupa pollagalla, snjógalla, stígvél og kuldaskó fyrir veturinn. Einnig eru jólin og byrjun sumars vinsæll tími árs hjá barnavöruverslunum.

Markaðshlutdeild tíu barnavörufyrirtækja

Hér sjáum við markaðshlutdeild 10 söluhárra barnavöruverslana síðustu tveggja ára. Yfir síðustu 12 mánuði versluðu 8.283 einstaklingar 32.072 sinnum hjá þessum 10 fyrirtækjum og versluðu fyrir rúmlega 445 milljónir króna. Ef við berum saman síðastliðna 12 mánuði við 12 mánuðina þar á undan sjáum við 34,2% vöxt milli ára.

Meðalupphæð hverra kaupa er mjög mismunandi á milli verslana eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Foreldrar kaupa greinilega dýra hluti eins og bílstóla og barnahúsgögn hjá Húsgagnaheimilinu og versla þar meðaltali fyrir 20.000 krónur.

Undanfarin ár hefur svokölluðum barnaveislum fjölgað, en nú til dags eru oft 2–3 veislur haldnar áður en barnið fæðist. Því eru nóg af tækifærum fyrir ömmur, afa, frændur, frænkur og vini að kíkja í barnabúðir og hafa þessar veislur líklega haft töluverð áhrif á markaðinn.

Tekjubreyting í kjölfar barneigna

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvaða áhrif barneignir hafa á tekjur foreldra, og þá sérstaklega tekjur kvenna. Niðurstöður benda til þess að í kjölfar barneigna lækki tekjur mæðra um 20% fyrstu 12–18 mánuðina. Þá benda rannsóknir einnig til þess að vöxtur launa hjá mæðrum sé hægari í kjölfar barneigna miðað við vöxt launa þeirra fyrir barneignir. Í Bandaríkjunum geta tekjur lækkað um allt að 40% og það getur tekið mæður fjölmörg ár að komast aftur í sömu laun og fyrir barneignir.

Erlendar rannsóknir benda til þess að barneignir hafi ekki sjáanleg áhrif á tekjur karla, en ástæður þess virðast tengjast þeirri venju að móðirin sé líklegri til að vera heima að sjá um barnið. Þessi venja virðist þó vera að breytast með tilkomu lengra feðraorlofs og samfélagsbreytinga. Erfitt var að skoða þróun launa karla í Meniga þar sem feður taka sér oft óreglulegt fæðingarorlof en því var ákveðið að skoða það ekki að þessu sinni.

Fyrir þennan hlaðvarpsþátt skoðuðum við færslur fæðingarorlofssjóðs til 2.000 kvenna. Á grafinu hér fyrir neðan má sjá tekjur kvenna 12 mánuðum fyrir og 12 mánuðum eftir fyrstu greiðslu frá fæðingarorlofssjóði. Bláa línan stendur fyrir meðaltekjur mæðra í hverjum mánuði. Sú græna tekur hins vegar mið af meðaltali þriggja mánaða fyrir hvern mánuð í senn.

Hér sjáum við þróun launa mæðra 12 mánuðum fyrir og 12 mánuðum eftir fæðingu
Fyrsta greiðsla frá fæðingarorlofssjóði er hér merkt sem "0" á x-ás

Gögn Meniga staðfesta það sem erlendar rannsóknir bentu til, að laun mæðra lækki um 20% fyrstu mánuðina eftir barneignir. Þessi lækkun er vegna þess að fæðingarorlofssjóður greiðir aðeins 80% af meðaltali heildarlauna. Ólíkt niðurstöðum erlendra rannsókna virðast þó laun mæðra ná sama horfi innan nokkurra mánaða eftir fæðingu og halda svo áfram að hækka.

Launaþróun mæðra 24 mánuðum fyrir og 24 mánuðum eftir barneignir
Launaþróun mæðra 24 mánuðum fyrir og 24 mánuðum eftir barneignir

Þetta graf bendir til þess að barneignir hafi ekki gríðarleg áhrif á starfsferil kvenna á Íslandi. Hugsanlega er þessi hækkun launa vegna þess að starfsfólk innir eftir launahækkunum samhliða auknum útgjöldum, enda fleiri með munna að fæða. Þó að ekki er hægt að fullyrða hver ástæðan sé fyrir þessari þróun þá er ljóst að þessi hækkun launa eftir barneignir er gríðarlega jákvæð.

Hefur þú áhuga á neyslugreiningu Meniga fyrir þitt fyrirtæki? Endilega hafðu samband við söluteymið okkar á sala@meniga.is.

...

Til þess að vita meira um Meniga getur þú getur þú farið á heimasíðuna okkar eða hlaðið niður gjaldfrjálsa Meniga appinu á iPhone eða Android. Þú getur einnig fylgt okkur á Facebook eða Instagram fyrir hjálplegar upplýsingar um notkun á Meniga, ný tilboð eða áskoranir og allt annað sem við erum að bralla hjá Meniga.