Á matvörumarkaði var 3,9% aukning í heildarveltu milli ára. Bónus var með 30,9% markaðshlutdeild og Krónan með 28,3% markaðshlutdeild. Áhugavert þótti okkur að í apríl 2021 var Krónan í fyrsta skiptið með hærri hlutdeild en Bónus á þessum markaði. Heimkaup.is tyllti sér á topp 10 listann ásamt Eldum Rétt. Hafa ber í huga að Heimkaup.is selja margt annað en matvöru (líkt og t.d. Hagkaup) en mikil áhersla hefur verið á matvöru hjá Heimkaup.is.

Þegar við færum okkur yfir á veitingamarkaðinn þá sjáum við einnig töluverða aukningu í heildarveltu milli ára, eða 17,8%. Veitingamarkaðurinn velti tæplega 16 milljörðum árið 2021 en inn í þessum tölum eru allir veitingastaðir, skyndibitastaðir, bakarí, kaffihús, ísbúðir eða hvers kyns veitingasala á landinu.

Í nýlegu bloggi töluðum við um innkomu Boozt.com á íslenskan markað en það hóf sölu á landinu um mitt ár 2021. Í flokknum föt og fylgihlutir náði Boozt.com inn á topp 5 listann yfir hæstu markaðshlutdeildina þrátt fyrir að hafa aðeins verið með starfsemi á landinu í tæpt hálft ár. Áhugavert verður að fylgjast með þróun á þessum markaði því þarna er á ferðinni erlend netverslun sem hefur komið inn með látum og spurning hvernig innlend verslun og netverslun bregðist við þessari nýju samkeppni.

Eldsneytismarkaðurinn er gríðarlega stór í veltu á einstaklingsmarkaði og sýndi aukningu upp á 27,3% á milli ára. Þess ber þó að geta að gögnin okkar sýna ekki eingöngu eldsneytisviðskipti þar sem margar stöðvar eru farnar að bjóða viðskiptavinum upp á allskyns veitingar og vörusölu.

Notendur Meniga geta rýnt í eigin útgjöld á síðasta ári með því að skrá sig inn á meniga.is og fylgja eftirfarandi skrefum;
1. Smella á "Innsýn"
2. Velja "Skýrslur"
3. Velja "Útgjöld"
4. Breyta tímabilinu í “Síðasta ár”
Einnig hvetjum við alla til að skoða og nýta sér þá gjaldfrjálsu þjónustu Meniga sem aðstoðar einstaklinga við að öðlast dýpri innsýn í heimilisbókhaldið.
Við þökkum fyrir samfylgdina á árinu og vonum að 2022 verði ykkur gæfuríkt, bæði í fjármálum sem og á öðrum vettvangi.