Sprengja í sölu útivistarbúnaðar vegna eldgoss

Tugþúsundir lögðu leið sína að eldgosinu í Geldingadölum, en til að komast á leiðarenda á öruggan hátt þurftu margir að fjárfesta í útivistarbúnaði. Með hjálp ópersónugreinanlegra neyslugagna skoðuðum við hvaða áhrif eldgosið hefur haft á útivistarmarkaðinn.

Eldgosið í Geldingadölum hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum en síðan gosið hófst þann 19. mars á þessu ári hafa tugþúsundir manna lagt leið sína að því. Fyrstu dagana var aðeins mælt með því að þaulvant útivistarfólk legði leið sína að gosinu enda var Suðurstrandarvegi lokað og því um margra klukkustunda göngu að ræða. Fljótt varð þó greinilegt að almenningur skyldi ekki missa af því að berja gosið augum. Björgunarsveitin Þorbjörn stikaði stystu leið að gosstöðvunum þann 22. mars til að auðvelda fólki að komast að gosinu en þó var gangan erfið vegna slæmrar færðar, hálku og kulda. Því var ljóst að gosáhugafólk þyrfti að vera vel búið fyrir gönguna.

Eftir að mælt var með því að fólk yrði vel búið sáu útivistarverslanir sér leik á borði og auglýstu nauðsynlegan búnað til að komast að gosstöðvunum á öruggan hátt, eins og gönguskó, höfuðljós, göngustafi og mannbrodda. Sumir tóku börnin sín með sér að gosinu og þurftu því margir einnig að fjárfesta í búnaði fyrir þau.

Við hjá Meniga búum svo vel að hafa aðgang að ópersónugreinanlegum neyslugögnum Meniga notenda og því gátum við rýnt í neysluhegðun Íslendinga í kjölfar eldgossins í Geldingadölum. Við ákváðum að skoða sölu hjá nokkrum vel völdum útivistarbúðum sem voru einstaklega ötular við að auglýsa búnað vikurnar í kringum gosið.

Breyting í sölu á milli ára

Grafið hér að ofan sýnir heildarsölu fimm útivistarverslana árin 2020 og 2021. Eins og sjá má var góð sala í 7. viku árið 2021 (15. — 22. febrúar) en það gæti verið vegna þess að skíðasvæðin fengu að opna með 50% af hámarksnýtingu þann 19. febrúar. Eldgos hófst mánuði síðar, eða þann 19. mars í 11. viku (15. — 21. mars). Sjá má að árið á undan fór sala minnkandi eftir því sem leið nær apríl en árið 2021 hækkar salan gífurlega. Gera má ráð fyrir því að þessi hækkun stafi af eldgosinu í Geldingadölum, að minnsta kosti að hluta. Ný sprunga opnaðist á öðrum degi páska, í upphafi 14. viku (5. — 11. apríl), og voru gosstöðvarnar lokaðar almenningi þrjá daga þessarar viku. Þann 13. apríl, í 15. viku (12. — 18. apríl), opnuðust fjórir nýir gígar á gosstöðvunum.

Á þessu 10 vikna tímabili jókst fjöldi viðskipta, eða hversu oft kortum var rennt í gegn, hjá þessum fimm útivistabúðum um 105% að meðaltali á milli ára. Mesta breytingin fyrir staka útivistarbúð var 234%. Þá hækkaði sala að meðaltali um 112% á þessu tímabili milli ára.

Páskahelgin er venjulega vinsæl ferða- og útivistarhelgi hjá Íslendingum, og því algengt að sala útivistarverslana hækki á þessu tímabili undir venjulegum kringumstæðum. Til þess að geta borið saman tímabilin tvö með páskana í huga hagræddum við grafinu fyrir ofan svo páskarnir falli á sama stað.

Breyting í sölu miðað við páska
Hér hefur grafinu fyrir ofan verið hagrætt þannig að páskarnir falli á sama stað á x-ásnum.

Eins og sjá má á grafinu virðist sala fara lækkandi tvo mánuði fyrir páska en hækkar svo aftur um og eftir páska. Árið 2021 byrjar salan hins vegar að hækka tveimur vikum fyrir páska, þegar eldgosið hefst. Heildarsala búðanna fimm jókst um rúm 286% vikuna fyrir páska árið 2021 miðað við 2020. Í páskavikunni sjálfri hækkaði salan um rúm 515%. Til samanburðar hækkaði heildarsala búðanna að meðaltali um 74% vikurnar sjö áður en gosið hófst.

Meðalupphæð stakra viðskipta virðist haldast nokkuð stöðug á milli ára en sem dæmi má nefna að stök sala vikuna fyrir páska var að meðaltali 25.654 kr. árið 2020 og 25.433 kr. árið 2021. Því eru búðirnar frekar að hagnast af fleiri viðskiptavinum heldur en að viðskiptavinir séu að kaupa fyrir hærri upphæð. Miðað við tölur Meniga jókst fjöldi færslna árið 2021 um 290% vikuna fyrir páska og 504% páskavikuna sjálfa, miðað við árið 2020.

Hafa ber í huga að þessar tölur eru ekki lýsandi fyrir fyrri ár. Vegna COVID-19 var fólk beðið um að takmarka ferðalög og hefur það haft mikil áhrif á útivistarmarkaðinn.

Sérstakar þakkir hlýtur Guðjón Guðmundsson, gagnasérfræðingur hjá Meniga.

Gögnin sem notuð voru eru ópersónugreinanleg neyslugögn notenda hjá Meniga sem versluðu við fimm útivistarbúðir á þessu tímabili. Hefur þú áhuga á neyslugreiningu Meniga fyrir þitt fyrirtæki? Endilega hafðu samband við söluteymið okkar á sala@meniga.is.

Mynd frá Ingva Gautssyni