Persónuvernd og öryggi

Traust er lykilatriði í öllum rekstri Meniga og þess vegna leggur Meniga ofuráherslu á að tryggja, með margvíslegum hætti, trúnað, áreiðanleika og örugga og ábyrga meðferð upplýsinga. Ekki hika við að hafa samband á oryggismal@meniga.is

Öryggis- og persónuverndarstefna

Almennt um persónuvernd og öryggi

Traust er lykilatriði í öllum rekstri Meniga og þess vegna leggur Meniga ofuráherslu á að tryggja, með margvíslegum hætti, trúnað, áreiðanleika og örugga og ábyrga meðferð upplýsinga. Ennfremur kappkostar Meniga að fræða notendur um öryggismál og hvernig unnið er með upplýsingar þeirra svo enginn þurfi að efast um að Meniga gangi lengra en flestir til að gæta öryggis og tryggja að unnið sé með upplýsingar fólks á öruggan, eðlilegan, löglegan, ábyrgan og siðlegan hátt. Öryggis- og persónuverndarstefna og öryggismál Meniga eru í sífelldri endurskoðun til að tryggja að ströngustu kröfum sé ávallt fylgt og mun Meniga, eftir atvikum, leitast við að láta óháða vottunaraðila reglulega til að taka út öryggismálin.

Ný löggjöf um persónuvernd (GDPR)

Meniga fagnar nýrri löggjöf um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (GDPR) sem tók gildi 25. maí 2018 á evrópska efnahagssvæðinu. Öryggi og persónuvernd hefur ávallt verið grunnstoð í okkar starfsemi og því bæði mikilvægt og jákvætt að löggjafarvaldið hafi tekið þetta skref til að skerpa á lögum og reglum sem snúa að meðferð fyrirtækja á persónuupplýsingum. Frekari upplýsingar um þetta má lesa í neðsta hluta þessarar samantektar "Samræming við regluverk og samvinna við eftirlitsaðila".

Eftirfarandi þættir lýsa hvernig Meniga tryggir þín réttindi í kjölfar GDPR.

Gögn sem við söfnum og geymum

Meniga greinir bankafærslur af þeim bankareikningum og greiðslukortum sem þú velur að deila með Meniga. Færslur af þessum reikningum eru sóttar og geymdar að jafnaði einu sinni á sólarhring eða þegar þú óskar eftir þvi að þær séu sóttar. Auk þess er staða reikninga og korta geymd.

Þú ert beðin/nn að velja sér netfang þegar þú skráir sig í þjónustuna auk þess sem þjónustan kann að biðja um upplýsingar sem snúa að aldri, kyni, búsetu, stærð húsnæðis eða fjölda bifreiða. Þér er frjálst að velja hvort þú kýst að gefa upp þær lýðfræðilegu upplýsingar sem óskað er eftir.

Kjósir þú að nýta þér endurgreiðslutilboð ert þú beðin/nn um reikningsupplýsingar (reikningsnúmer og kennitölu) svo hægt sé að endurgreiða þér ávinninginn af verslun í virkum tilboðum.

Til að bæta þjónustuna safnar Meniga einnig tæknilegum upplýsingum um hvernig þú notar Meniga, t.d. með hvaða vafra eða appi þú nálgast þjónustuna, hvaðan og hvaða virkni þú notar helst. Þannig finnum við út því hvaða þættir af okkar þjónustu virka best og hvernig megi bæta aðgengi og virkni öllum notendum til hagsbóta.

Ef þú hefur samband við Meniga vegna spurningar eða úrlausnar á tæknilegu vandamáli geymir Meniga einnig þá samskiptasögu.

Ástæða gagnasöfnunar

Við söfnum, geymum og greinum gögn í gegnum þjónustu okkar í eftirfarandi tilgangi:

Til að veita þjónustuna

Til að Meniga geti veitt þér þá þjónustu sem þú hefur skráð þig fyrir greinir Meniga neyslumynstur þitt út frá færslum sem fylgja þeim bankareikningum og kortum sem þú hefur tengt við kerfið. Meniga flokkar helstu tekju- og útgjaldaliði og tengir færslur við það fyrirtæki sem verslað var við (ef við á). Tilgangur þessarar úrvinnslu er að útbúa fyrir þig einfalda yfirsýn á heimilisfjármálin sem og að veita nýja innsýn í formi aðgengilegs notendaviðmóts, skýrslna og tilkynninga.

Að auki nýtir Meniga færsluupplýsingar til að taka saman ópersónugreinanlegar markaðsgreiningar sem seldar eru fyrirtækjum og/eða birtar í fjölmiðlum, til að upplýsa almenning um stöðuna á íslenskum markaði.

Þínar persónuupplýsingar eru aldrei gerðar aðgengilegar þessum fyrirtækjum og ef greiningar ná ekki lágmarkskröfu um fjölda notenda eru þær skýrslur ekki gerðar aðgengilegar fyrirtækjum.

Viðhald og þróun á okkar þjónustu

Meniga greinir einnig notkun þína á appi eða vefsvæði Meniga til að geta bætt og þróað þjónustuna enn frekar.

Í þessari greiningu felst meðal annars að telja hvaða þætti þjónustunnar þú notar helst, hversu oft þú skráir þig inn, hvaðan og með hvaða vafra og stýrikerfi.

Þróun nýrra vara

Meniga safnar upplýsingum frá notendum, m.a. í gegnum ábendingar í gegnum samfélagsmiðla og töluvpósti, í gegnum notendahegðun á appi og vefkerfi Meniga.is eða notendaprófunum, til þess að þróa nýjar vörur og lausnir sem gætu nýst notendum. Endurgjöf notenda er okkur mjög mikilvæg í allri þróunarvinnu.

Til að veita sérsniðna þjónustu, s.s. endurgreiðslutilboð og samanburð

Auk þess nýtir Meniga færsluupplýsingar, lýðfræðilegar upplýsingar eða tölfræðilegar greiningar til að sýna þér hvernig þitt neyslumynstur er í samanburði við samanteknar (og ópersónugreinanlegar) upplýsingar um aðra notendur.

Meniga nýtir einnig þitt persónulega neyslumynstur til að finna heppileg tilboð frá fyrirtækjum sem taka þátt í endurgreiðslutilboðum Meniga. Þínar persónupplýsingar (bankafærslur tengdar nýtingu tilboða þar með talið) eru hins vegar aldrei veittar þessum fyrirtækjum undir neinum kringumstæðum.

Árangursmælingar

Meniga safnar upplýsingum um notkun á vörum Meniga til þess að skilja betur hvaða þættir þjónustunnar nýtast notendum best og til þess að mæla viðbrögð notenda við nýjum vörum eða uppfærslu á núverandi vörum. Árangursmælingarnar eru lykilhluti af "Viðhaldi og þróun" á okkar þjónustu og "Þróun nýrra vara" sem má lesa um hér að ofan.

Samskipti við notendur

Meniga er þjónusta sem er þróuð af notendum og fyrir notendur. Það er Meniga mjög mikilvægt að geta átt í opnum samskiptum við þig og aðra notendur. Bæði svo við getum upplýst þig um uppfærslur, nýjar vörur, ný endurgreiðslutilboð eða aðrar mikilvægar breytingar á okkar þjónustu og einnig svo þú eigir auðvelt með að láta okkur vita ef einhver hluti þjónustunnar liggur niðri, er ekki að nýtast sem skildi, þú upplifir óánægju með uppfærslur eða ef þjónustan er að nýtast vel. Við fögnum allri endurgjöf á okkar þjónustu og reynum að bregðast fljótt við.

Annars vegar, geymum við upplýsingar um netföng (notandanöfn) notenda og getum þannig sent þér tölvupóst með tilkynningum um uppfærslur, nýjar vörur, ný endurgreiðslutilboð eða aðrar mikilvægar breytingar. Í hverjum tölvupósti gefst þér kostur á að afskrá þig fyrir þannig tilkynningum og þá verður netfangi þínu eytt af þeim lista. Netfangið verður þó enn til í gagnagrunnum Meniga fyrir auðkenningu á innskráningu í app og/eða vefkerfi Meniga.

Hins vegar, söfnum við og geymum gögn sem gera okkur kleift að eiga í beinum samskiptum við þig og aðra notendur í gegnum app og/eða vefkerfi Meniga.

Öryggi þinna upplýsinga

Geymsla færslna af bankareikningum og kortum uppfyllir ströngustu öryggiskröfur (sambærilegt við öryggi banka) og er með þeim hætti að ekki er hægt að nálgast upplýsingar um þig út frá einföldum persónupplýsingum eins og kennitölu eða reikningsnúmeri, þar sem að Meniga geymir þær upplýsingar ekki (þessar upplýsingar eru geymdar dulkóðaðar ef þær hafa verið gefnar upp sem hluti af þátttöku þinni í endurgreiðslutilboðum).

Að auki hafa einungis starfsmenn Meniga með sérstök réttindi aðgang að þeim grunnum sem geyma færslugögn og önnur notendagögn. Allar uppflettingar starfsmanna eru auk þess skráðar.

Upplýsingum þínum deilt

Meniga deilir aldrei þínum persónuupplýsingum. Einu upplýsingarnar sem Meniga deilir eru tölfræðiskýrslur og/eða – greiningar sem byggja á samanteknum og ópersónugreinanlegum gögnum frá hópi notenda, sjá "Ástæða gagnasöfnunar" hér að ofan.

Stjórn á þínum upplýsingum

Eftirfarandi hlutar geyma upplýsingar um hvernig þú getur nálgast, eytt eða uppfært þínar upplýsingar:

Aðgangur að og uppfærsla á þínum upplýsingum

Allar þær færslur af bankareikningum og kortum sem Meniga geymir sem og aðrar persónuupplýsingar sem þú hefur látið af hendi eru aðgengilegar í kjölfar innskráningar á meniga.is.

Þar getur þú einnig leiðrétt og/eða uppfært þær persónuupplýsingar sem þú hefur kosið að deila með Meniga.

Útflutningur þinna upplýsinga

Meniga gerir þér kleift að taka afrit af þínum upplýsingum sem geymdar eru gagnagrunnum Meniga. Þetta á þó ekki við um færsluupplýsingar þar sem þær eru þér aðgengilegar hjá þeirri banka- eða fjármálastofnun sem þú ert í viðskiptum við. Til þess að óska eftir afriti af þínum upplýsingum getur þú haft samband við okkur í gegnum oryggismal (hjá) meniga.is.

Eyðing þinna upplýsinga

Ef þú ákveður að hætta að nota Meniga með því að eyða Meniga notandareikningnum þínum mun Meniga eyða öllum persónupplýsingum um þig sem eru geymdar hjá Meniga (þar með talið færslum af reikningum og kortum sem og stöðu reikninga og korta).

Undantekningin frá þessu eru færslur sem tengjast áunninni endurgreiðslu í endurgreiðslutilboðum, hafir þú kosið að nýta þér þau.

Meniga eyðir hins vegar ekki gögnum sem hafa verið gerð ópersónugreinanleg með öllu, sem á við þegar þín gögn hafa verið tekin saman með gögnum annarra notanda og þar af leiðandi ekki hægt að tengja aftur við þig með neinum hætti.

Samræming við regluverk og samvinna við eftirlitsaðila

Persónuvernd og öryggi hafa ávallt verið Meniga mjög mikilvæg enda grunnstoð í því trausti sem ríkir á milli okkar og notenda þjónustunnar. Í upphafi starfsemi Meniga, höfðum við frumkvæði af því að hafa samband við Persónuvernd og óska eftir úttekt þeirra á starfsemi Meniga til að tryggja að hún væri í samræmi við lög og reglur. Öryggisráðstafanir og virðing fyrir persónuvernd okkar notenda hefur því verið órjúfanlegur hluti af genamengi Meniga frá upphafi og því fögnum við bættri löggjöf sem tryggir enn frekar rétt okkar notenda og leggur fyrirtækjum skýr mörk um hvernig nýta megi persónuupplýsingar einstaklinga.

Meniga endurskoðar reglulega þessa öryggis- og persónuverndarstefnu og fylgir henni þegar kemur að vinnslu þinna upplýsinga.

Gagnaöryggi og aðgangsstjórnun sem jafnast á við bankaöryggi

Öll samskipti eru dulkóðuð, bæði við notendur og banka (auðkennt í vafranum með „https“ forskeyti á undan vefslóðinni og mynd af hengilás). Gagnagrunnar Meniga.is eru sömuleiðis dulkóðaðir.

Aðgangsstjórnun er að mestu leyti eins og í netbanka, t.d. sjálfvirk útskráning eftir 15 mínútur, kröfur um „öruggt“ lykilorð o.fl. Vefurinn og gagnagrunnar hans eru hýstir í læstu og vöktuðu herbergi hjá öryggisvottuðum hýsingaraðila. Núverandi hýsingaraðili Meniga er Microsoft sem er með ISO-27001 öryggisvottun.

Upplýsingar notenda eru eingöngu aðgengilegar, og eingöngu eftir þörfum, starfsfólki Meniga sem starfar við að reka, þróa, eða bæta þjónustuna. Allir starfsmenn Meniga eru með hreint sakavottorð og bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir kunna að verða áskynja um hagi notenda. Meniga rekur virkt eftirlit með starfsmönnum og áskilur sér rétt til að kæra öll brot á þagnarskyldu til viðeigandi yfirvalda. Eftirlit Meniga er m.a. fólgið í því að allur aðgangur starfsmanna að gögnum notenda er skráður í gagnagrunn svo öryggisstjóri Meniga geti ávallt séð hverjir hafa skoðað upplýsingar.

Öryggisstjórar íslenskra fjármálastofnana sem Meniga á í samstarfi við hafa farið yfir öryggismál Meniga og staðfest fyrir sitt leyti að Meniga uppfylli ströngustu öryggiskröfur.

Meniga eitt af örfáum íslenskum fyrirtækjum sem er með EV SSL skírteini fyrir dulkóðuð netsamskipti frá Verisign (auðkennt í vöfrum með grænum lit í vefslóðarreit). Auk þess er Meniga með „Hacker-safe“ vottun frá McAfee sem staðfestir að ekki sé hægt að nota þekktar aðferðir til að brjótast inn í vefþjóna Meniga.is.

Persónugreinanlegum upplýsingum haldið í lágmarki

Stefna Meniga er að geyma og vinna með eins lítið af persónugreinanlegum upplýsingum og mögulegt er til að geta veitt þjónustuna. Ekki er t.d. beðið um nafn, kennitölu, heimilisfang eða aðrar persónuupplýsingar. Til að geta átt samskipti við notendur óskar Meniga þó eftir netfangi, sem í sumum tilvikum getur verið persónugreinanlegt (notendur geta þó valið að nota ópersónugreinanlegt netfang). Ef notendur nota ópersónugreinanlegt netfang og láta Meniga ekki hafa farsímanúmer þá hefur Meniga engar persónugreinanlegar upplýsingar undir höndum um notendur.

Meniga hefur aðgang að færsluupplýsingum en ekki bankareikningsnúmerum eða greiðslukortanúmerum (að beiðni Meniga láta fjármálastofnanir okkur hafa brengluð reikningsnúmer og greiðslukortanúmer þegar gögn eru sótt til þeirra).

Kjósi notandi að taka þátt í endurgreiðslutilboðum Meniga fer Meniga fram á reikningsnúmer og kennitölu til að geta greitt áunna endurgreiðslu á valinn reikning. Bæði reikningsnúmer og kennitala er dulkóðuð í grunnum Meniga.

Meniga hefur aðgang að ítarlegum fjárhagsupplýsingum og mun meðhöndla allar upplýsingar notenda sem persónuupplýsingar og heitir því að starfa að öllu leyti í samræmi við íslensk lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Meniga hefur tilkynnt Persónuvernd um starfsemi sína eins og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gera ráð fyrir.

Eingöngu lesaðgangur að bankareikningum og greiðslukortum

Meniga hefur ekki aðgang að framkvæmd neinna fjárhagslegra aðgerða fyrir hönd notenda. Meniga hefur eingöngu (með leyfi notenda) lesaðgang að færslum.

Notendur geta afturkallað aðgang að reikningum og greiðslukortum hvenær sem er í netbankanum sínum eða í appi eða á vef Meniga.

Meniga ábyrgist að nýta sér ekki upplýsingar um notendur á óábyrgan, óöruggan eða ósiðlegan hátt

Meniga mun ekki undir nokkrum kringumstæðum afhenda, selja eða leigja persónuupplýsingar eða fjárhagsupplýsingar (færslur eða stöðu reikninga) notenda til þriðja aðila.

Meniga mun aldrei láta samskiptaupplýsingar notenda (t.d. netfang eða farsímanúmer) í té þriðja aðila nema hugsanlega samstarfsaðilum sínum sem taka þátt í að veita þjónustuna (t.d. bönkum og fjármálastofnunum) og aldrei í öðrum tilgangi en að eiga hófleg og eðlileg samskipti við notendur vegna aðgangs þeirra og notkunar á þjónustu Meniga.

Notendur (en ekki Meniga) eiga sínar persónu- og fjárhagsupplýsingar og hafa einir aðgang að þeim (með innskráningu í þjónustu Meniga). Allar upplýsingar sem notendur láta Meniga í té eða sem Meniga sækir með þeirra leyfi til þriðja aðila (t.d. upplýsingar um færslur af bankareikningum og greiðslukortum) eru eingöngu sóttar í þeim tilgangi hægt sé að veita notendum þjónustuna.

Þrátt fyrir ofansagt áskilur Meniga sér rétt til að útbúa ópersónugreinanlegar tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar upplýsingar sem án alls vafa eru ekki persónugreinanlegar og nota sér þær í viðskiptalegum tilgangi eða afhenda þriðja aðila af málaefnalegum og gildum ástæðum, t.d. sem hér segir:

 1. Vegna rannsókna ábyrgra aðila á fjármálahegðun.
 2. Sem hluta af þjónustu Meniga.is, t.d. til að notendur geti borið sitt neyslumynstur saman við meðaltöl annarra notenda síðunnar.
 3. Svo að Meniga geti upplýst auglýsendur og aðra samstarfsaðila um samsetningu og neysluhegðun notenda síðunnar. T.d. kann Meniga að upplýsa auglýsendur eða samstarfsaðila um hversu hátt hlutfall notenda kaupir tiltekna vöru eða þjónustu eða að bjóða auglýsendum að auglýsing þeirra birtist bara hjá vissum hópi notenda sem uppfyllir ákveðin (ópersónugreinanleg) skilyrði ef Meniga telur það ekki ganga gegn hagsmunum notenda.

Þrátt fyrir ofansagt áskilur Meniga sér einnig rétt til að afhenda upplýsingar notenda til þriðja aðila ef:

 1. Meniga ber að gera það samkvæmt lögum.
 2. Meniga er keypt eða sameinast öðru fyrirtæki en aðeins í samræmi við ákvæði þessarar öryggisstefnu (þannig að nýja fyrirtækið reki sambærilega þjónustu áfram með sömu skilmálum).
 3. Notendur Meniga veita upplýst samþykki sitt fyrir því að veita öðrum notendum vefsins eða utanaðkomandi aðilum aðgang að skráningar- og/eða fjárhagsupplýsingum sínum í tilgangi sem er í samræmi við markmið og þjónustu vefsins (t.d. til að útvíkka þjónustuna með hjálp þriðja aðila). Slíkt verður þó aldrei gert nema ef Meniga telur viðkomandi aðila uppfylla sambærilegar kröfur og hér koma fram um öryggismál og meðferð upplýsinga.

Til að geta veitt þjónustuna ókeypis reiðir Meniga sig að hluta á auglýsingar til að fjármagna reksturinn. Allar auglýsingar í þjónustu Meniga eru skýrt merktar og afmarkaðar frá ritstýrðu efni, eins og t.d. sparnaðarráðum og hagnýtum upplýsingum. Í sumum tilfellum kann Meniga að bjóða auglýsendum að birtingu auglýsinga sé stjórnað þannig að auglýsingin birtist aðeins hjá þeim notendum sem eru líklegir, út frá neyslumynstri sínu, til að hafa áhuga á auglýsingunni. Þetta er þó aldrei gert ef Meniga telur það ekki þjóna hagsmunum notenda.

Þegar notendur heimsækja þjónustu Meniga kann Meniga að safna tæknilegum upplýsingum um notkun þeirra, t.d. um tegund vafra, hvaða vefsíður notendur heimsækja á Meniga.is, tímann sem notendur verja í þjónustunni o.s.frv. Þess konar upplýsingar eru eingöngu notaðar til að bæta upplifun notenda af þjónustunni, t.d. með því að bæta hönnun þjónustunnar eða láta notendur vita af hugsanlegum tæknilegum vandamálum í búnaði þeirra.

Þegar notendur loka aðgangi sínum að vefsvæði Meniga verður öllum upplýsingum sem þeim tilheyra umsvifalaust eytt úr tölvukerfum Meniga. Þó kunna upplýsingar um notendur að vera til á dulkóðuðu formi í öryggisafritum af gagnagrunnum Meniga í allt að tvo mánuði eftir að aðgangi er lokað.

Notendaskilmálar og öryggisstefna Meniga verður ávallt aðgengileg á vefsvæðinu Meniga.is. Meniga áskilur sér rétt til að breyta öryggisstefnu þessari af og til eins og þurfa þykir.

Notkunarskilmálar

Skilmálar um þjónustu Meniga

Á eftir stuttri lýsingu á þjónustu Meniga eru hér fyrir neðan útlistaðir þeir skilmálar sem eiga við um aðgang þinn og notkun á vefnum Meniga.is sem íslenska einkahlutafélagið Meniga Iceland ehf., kt 571215-0200 (hér eftir nefnt Meniga), á og rekur. Með því að nota Meniga.is samþykkir þú að hlýta öllum notkunarskilmálum Meniga eins og þeir eru á hverjum tíma (sjá líka: „Breytingar á skilmálum“ hér fyrir neðan).

Um þjónustu Meniga

Þjónusta Meniga inniheldur upplýsingar, virkni og stjórntæki fyrir fjármál einstaklinga í formi hugbúnaðar sem flokkar og greinir bankafærslur notenda (færslur af bankareikningum og greiðslukortum) og gerir notendum kleift að: Hafa yfirsýn yfir tekjur og gjöld, greina fjármálin og finna leiðir til að spara eða nýta fjármuni betur.

Þjónustan inniheldur einnig greinar og fróðleik um heimilisfjármál og hefur það markmið að stuðla að ábyrgri fjármálahegðun og gerir fólki kleift að stjórna heimilisfjármálunum á sem auðveldastan og skilvirkastan hátt.

Hluti þjónustunnar felst í að birta reglulega sparnaðarráð og hagnýtar upplýsingar sem kunna að vera sniðnar að þínu persónulega neyslumynstri eins og það birtist í þeim upplýsingum sem Meniga geymir, fyrirspurnum til þriðja aðila eða öðrum gögnum.

Þjónustan kann einnig að vera fjármögnuð að hluta með auglýsingum á vefsvæði Meniga. Allar auglýsingar á vefsvæði Meniga birtast á vel afmörkuðum auglýsingasvæðum og er gerður skýr greinarmunur á þeim og sparnaðarráðum og hagnýtum upplýsingum sem Meniga ritstýrir og enginn hefur greitt fyrir.

Meniga kann að stjórna birtingu auglýsinga út frá þínu persónulega neyslumynstri eins og það birtist í þeim upplýsingum sem Meniga geymir, fyrirspurnum til þriðja aðila eða í öðrum gögnum. Auglýsendum á vefsvæði Meniga er aldrei veittur aðgangur að þínum persónulegu upplýsingum, hvort sem það eru persónuupplýsingar, fjármálaupplýsingar eða önnur gögn.

Sparnaðarráð, hagnýtar upplýsingar og auglýsingar sem kunna að birtast á vefsvæði Meniga geta innihaldið vefkrækjur á vefsvæði þriðja aðila.

Þjónusta Meniga er ókeypis fyrir notendur vefsins.

1. Samþykki notkunarskilmála Meniga

Með því að nota upplýsingar, verkfæri og virkni á vefnum Meniga.is (saman nefnt „þjónustan“), samþykkir þú að hlýta þessum skilmálum, hvort sem þú ert „gestur“ (sem merkir að þú hefur farið inn á vefsvæðið Meniga.is) eða „meðlimur“ (sem merkir að þú hefur stofnað notendaaðgang að Meniga). Orðin „þú“ og „notandi“ í öllum beygingarmyndum í þessum skilmálum vísa til gests eða meðlims. Ef þú óskar eftir því að gerast meðlimur, eiga samskipti við aðra meðlimi og nýta þér þjónustuna, þá verður þú að lesa þessa skilmála og samþykkja í skráningarferlinu. Til notkunar telst m.a. skoðun, upplýsingaöflun og/eða nýting þeirrar þjónustu sem í boði er á vefsvæðinu Meniga.is á hverjum tíma. Öll notkun vefsins takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist og þær upplýsingar og þá þjónustu sem boðið er upp á á hverjum tíma.

Áður en þú lest áfram ættir þú að prenta út og vista afrit af þessum skilmálum.

2. Persónuvernd

Öryggis- og persónuverndarstefna Meniga, sem telst hluti af þessum skilmálum, inniheldur ítarlegar upplýsingar um öryggismál og meðferð Meniga á persónu- og fjárhagsupplýsingum þínum. Meniga áskilur sér rétt til að uppfæra Öryggis- og persónuverndarstefnuna og er ávallt sú útgáfa í gildi sem er aðgengileg á hverjum tíma á vefsvæðinu Meniga.is.

3. Aðgangur að þjónustunni og aðgangsupplýsingar þínar

Þú skilur og samþykkir að þú sért ábyrg(ur) fyrir því að tryggja leynd lykilorðsins þíns sem gerir þér kleift, ásamt notendanafni þínu (netfangi), að fá aðgang að þjónustunni. Með því að láta Meniga í té netfang þitt, samþykkir þú að Meniga megi, þegar nauðsyn krefur, senda þér tilkynningar á netfang þitt í tengslum við aðgang þinn að þjónustunni. Notendanafn þitt, lykilorð og aðrar samskiptaupplýsingar sem þú kannt að láta Meniga í té (t.d. farsímanúmer fyrir SMS tilkynningar) teljast til „aðgangsupplýsinga“ þinna.

Ef þú verður á einhvern hátt var/vör við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar þínar, samþykkir þú að láta Meniga strax vita með því að senda tölvupóst á oryggismal (hjá) meniga.is.

Réttur þinn til að fá aðgang að og nota þjónustuna er bundinn við þig og þér er ekki heimilt að flytja þann rétt til annars manns eða lögaðila. Þér er þó heimilt að veita maka eða sambýlingi aðgang að þínu svæði enda séuð þið með sameiginlegan fjárhag. Þér er einungis heimilt að fá aðgang að og nota þjónustuna í löglegum tilgangi.

Aðgangur þinn að Meniga.is gæti rofnað af ýmsum ástæðum, t.d. vélbúnaðarbilunum, tæknilegum bilunum, hugbúnaðarvillum eða kerfisuppfærslum.

4. Hlutleysi Meniga gagnvart fjárhagsupplýsingum þínum

Þjónustan kann að bjóða upp á að meðlimir geti gefið leyfi sitt fyrir því að Meniga sæki fyrir þeirra hönd fjármálaupplýsingar þeirra, t.d. færslur á bankareikningum og greiðslukortum, sem eru í vörslu þriðja aðila og þeir eru í viðskiptasambandi við. Meniga hefur gert samninga við fjármálastofnanir um að sækja slíkar upplýsingar með samþykki eigenda upplýsinganna. Meniga er hlutlaus aðili og tekur ekki á nokkurn hátt afstöðu til slíkra fjármálaupplýsinga. Hlutleysi Meniga felur í sér, en er ekki takmarkað við, að Meniga tekur ekki á nokkurn hátt afstöðu til hvort færslur eða aðrar upplýsingar séu réttar, löglegar eða siðlegar. Meniga ber enga ábyrgð á upplýsingum, vörum og þjónustu á vefsvæðum þriðja aðila.

Meniga getur ekki alltaf séð fyrir tæknileg eða annars konar vandamál sem kunna að valda því að ekki sé hægt að sækja upplýsingar, að gögn glatist eða þjónusturof verði á annan hátt. Meniga reynir að tryggja áreiðanleika eftir fremsta megni en ber ekki ábyrgð á því að samskipti, stillingar eða gögn birtist rétt, eyðist, vistist eða skili sér til notenda vefsvæðis Meniga. Meniga ábyrgist heldur ekki að nýjustu gögn séu ávallt sýnileg eða aðgengileg á vefsvæði Meniga heldur endurspegla þau aðeins hvenær Meniga sótti síðast gögn til annarra aðila.

5. Sparnaðarráð, hagnýtar upplýsingar og auglýsingar

Meniga ábyrgist ekki á nokkurn hátt vörur og þjónustu þriðja aðila sem kann að vera getið á vefsvæði Meniga, hvort sem um auglýsingu er að ræða eða ekki. Meniga ábyrgist ekki heldur að verð eða viðskiptaskilmálar þriðja aðila á vöru eða þjónustu sem eru birtir eða auglýstir á vefsvæði Meniga séu réttir, hagstæðir eða að hægt sé í raun að kaupa slíka vöru og þjónstu á því verði eða með þeim skilmálum sem kunna að birtast á vefsvæði Meniga.

6. Tilkynningar með tölvupósti og textaskilaboðum í farsímanúmer

Af og til kann Meniga að senda þér nauðsynlegar tilkynningar með rafrænum hætti vegna skráningar og aðgangs þíns eða notkunar á þjónustunni (t.d. þegar aðgangsupplýsingum er breytt) eða aðrar valkvæðar tilkynningar í tengslum við notkun þína á þjónustunni. Þegar aðgangur þinn að þjónustunni er stofnaður í fyrsta sinn kann að vera að þú verðir skráður fyrir sumum valkvæðum tilkynningum. Þú getur síðan hvenær sem er breytt, afskráð eða skráð þig fyrir öllum valkvæðum tilkynningum. Af og til kann Meniga að bæta við nýjum tegundum tilkynninga eða fjarlægja tilteknar tegundir tilkynninga.

Rafrænar tilkynningar frá Meniga verða sendar á netfangið sem þú hefur gefið upp sem aðalnetfang þitt fyrir Meniga.is. Þér kann líka að vera boðið að fá tilteknar tilkynningar sendar sem textaskilaboð á farsímanúmerið þitt.

Þar sem tilkynningar eru ekki dulkóðaðar munu þær aldrei innihalda lykilorðið þitt. Hins vegar geta tilkynningar innihaldið netfangið þitt (þegar þér er sendur tölvupóstur), farsímanúmer (þegar þér eru send textaskilaboð í farsímanúmer) og upplýsingar sem tengjast fjárhag þínum. Eðli fjárhagsupplýsinga í tilkynningum til þín fer eftir því hvaða tilkynningar þú velur og hvernig þær eru stilltar. Allir sem hafa aðgang að tölvupóstinum þínum munu geta séð innihald þessara tilkynninga. Þú getur hvenær sem er valið að skrá þig úr öllum valkvæðum tilkynningum.

Þú skilur og samþykkir að öllum tilkynningum, sem þér eru sendar með notkun þjónustunnar, gæti seinkað eða ekki borist þér af ýmsum ástæðum. Meniga reynir eftir fremsta megni að tryggja að tilkynningar berist þér fljótt og örugglega en ábyrgist á engan hátt að tilkynningar berist þér eða að tilkynningar innihaldi ávallt nýjustu eða réttar upplýsingar. Þú samþykkir að Meniga ber enga skaðabótaskyldu vegna tilkynninga sem berast seint eða alls ekki eða vegna villna í efni tilkynninga enda séu mistökin ekki gerð viljandi.

7. Réttindi sem þú veitir Meniga

Með því að skrá þig fyrir þjónustunni og samþykkja skilmála þar að lútandi í netbankanum þínum samþykkir þú að fjármálastofnanir sem þú ert í viðskiptum við veiti Meniga rafrænan lesaðgang að upplýsingum um ákveðna bankareikninga og greiðslukort í þínu nafni (þú velur hvaða reikninga og greiðslukort þegar þú skráir þig í þjónustuna í netbankanum þínum) sem og að öllum færslum á þessum reikningum og greiðslukortum. Leyfið sem þú veitir Meniga er háð eftirfarandi skilyrðum og takmörkunum:

 • Eingöngu er um lesaðgang að ræða. Meniga hefur hvorki leyfi til, né möguleika á, að millifæra eða framkvæma nokkrar fjárhagslegar aðgerðir.
 • Leyfið er ótímabundið en má afturkalla hvenær sem er úr netbankanum.
 • Eins og skýrt er kveðið á um í Öryggisstefnu Meniga, mun Meniga ekki undir nokkrum kringumstæðum afhenda, selja eða leigja upplýsingar sem aflað er samkvæmt þessu leyfi til þriðja aðila. Þó getur þér verið af og til gefinn kostur á að veita öðrum notendum vefsins eða utanaðkomandi aðilum aðgang að þínum upplýsingum í tilgangi sem er í samræmi við markmið þjónustunnar. Slíkt verður aldrei gert nema með fyrir fram fengnu upplýstu samþykki þínu. Meniga er þó heimilt að taka saman tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar ópersónugreinanlegar samantektir án sérstaks samþykkis frá þér og nota í viðskiptalegum tilgangi eða miðla til þriðja aðila enda séu þær aldrei á persónugreinanlegu formi.
 • Með því að samþykkja skilmálana í netbankanum þínum staðfestir þú að þér sé heimilt að veita Meniga leyfi til að nota gögnin í þeim tilgangi að veita þjónustuna.
 • Leyfið er veitt Meniga án nokkurra skuldbindinga af hálfu Meniga til að greiða fyrir það og án nokkurra annarra takmarkana sem ekki er getið í þessum skilmálum.

Með því að nota þjónustuna veitir þú samþykki þitt fyrir því að Meniga sæki, fyrir þína hönd, upplýsingar sem þú hefur veitt samþykki fyrir í netbankanum þínum. Þú skilur og samþykkir að þegar Meniga sækir upplýsingar þínar er Meniga að sækja þær í þínu umboði en ekki í umboði fjármálastofnunarinnar þar sem þær eru geymdar.

8. Hugverkaréttindi Meniga

Allt innihald vefsvæðisins Meniga.is, þar með talið útlitshönnun (t.d. texti, grafík, myndir, vörumerki), ljósmyndir, hugbúnaður, ritstýrt efni, tilkynningar og annað efni er varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Innihald Meniga.is er eign Meniga eða notað samkvæmt leyfi frá hugbúnaðar-, gagna- eða efnisveitum sem Meniga á í viðskiptasambandi við. Meniga veitir þér leyfi til að skoða og nota Meniga.is samkvæmt þessum skilmálum. Þú mátt eingöngu sækja eða prenta afrit af upplýsingum og efni á Meniga.is til þinna persónulegu nota en ekki í viðskiptalegum tilgangi. Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af innihaldi Meniga.is, hvort heldur sem er að hluta eða heild, í einhverjum öðrum tilgangi er þér með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Meniga Iceland ehf.

9. Aðgangstakmarkanir

Þú samþykkir hér með að þú notar ekki neins konar sjálfvirkan hugbúnað, forrit eða annars konar sjálfvirkar aðferðir til að fá aðgang, afrita eða fylgjast með nokkrum hluta af vefsvæði Meniga.is nema með skriflegu leyfi Meniga.

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki nota neins konar forrit, hugbúnað eða annars konar aðferðir til að heimsækja, nota eða leita að gögnum á vefsvæði Meniga.is nema með almennum vöfrum (t.d. Firefox eða Microsoft Internet Explorer) og almennum leitarvélum (t.d. Google eða Bing).

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki senda skrár eða gögn á vefsvæði Meniga sem gætu flokkast sem tölvuvírus, tölvuormur eða trjóuhestur eða innihalda einhvers konar skaðlega eiginleika eða sem gætu á einhvern hátt truflað eðlilega virkni Mengia.is eða þjónustunnar.

Þú samþykkir ennfremur að þú munt ekki reyna á nokkurn hátt að sækja, birta eða greina (e. reverse engineer) á annan hátt undirliggjandi forritskóða (e. source code) út frá þeim hugbúnaði sem er notaður á Meniga.is.

10. Efni sem þú sendir til Meniga.is

Þjónustan felur í sér að meðlimum er gert kleift að senda inn efni á spjallþræði, blogg og önnur svæði innan Meniga.is sem innihalda efni frá notendum. Þú samþykkir hér með að fylgja eftirfarandi reglum þegar þú sendir hvers konar texta, gögn eða efni til Meniga.is:

 • Þú ert ábyrg(ur) fyrir öllu efni sem þú sendir til Meniga.is.
 • Með því að senda inn efni þá ábyrgist þú að þú hefur öll nauðsynleg réttindi og leyfi til að senda inn efnið og að þú veitir Meniga ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir öllum framlögum þínum, m.a. rétt til birtingar, útgáfu, almennra sýninga, fjölföldunar, leigu, útlána, sölu og dreifingar með hverjum þeim tæknilega hætti sem mögulegur er í dag eða fundinn verður upp síðar, án þess að Meniga beri að greiða þér fyrir. Hugverkaréttarheimildir þessar ná yfir allar gerðir hugverka og öll miðlunarform. Meniga hefur einnig rétt til þess að láta þýða allt efni á erlend tungumál. Þú veitir líka hér með hverjum notanda Meniga.is leyfi til að nálgast framlög þín í gegnum Meniga.is og til að skoða, afrita, dreifa, útbúa afleidd verk, sýna, og nota þín framlög í samræmi við þessa skilmála, reglur Meniga og þá virkni sem er að finna á vefsvæði Meniga.is.
 • Þér er ekki heimilt að senda inn efni sem gæti talist móðgandi, sært blygðunarkennd eða efni sem inniheldur persónuupplýsingar eða fjallar um einkamál fólks.
 • Þér er ekki heimilt að senda inn nokkurs konar efni, myndir eða forrit sem brjóta á eignar-, hugverka- eða höfundarrétti annarra.
 • Þér er ekki heimilt að trufla notkun annarra notenda sem nýta sér þjónustuna. Til dæmis er þér ekki heimilt að trufla eðlileg samskipti á gagnvirkum svæðum á Meniga.is, eyða eða breyta efni sem aðrir hafa sent inn, gera eitthvað sem veldur óeðlilega miklu álagi á þjónustuna og tölvukerfið sem hún keyrir á eða nokkuð annað sem truflar eðlilegt aðgengi annarra notenda að þjónustunni.
 • Nema annað sé sérstaklega tekið fram á þar til gerðum svæðum innan Meniga.is, er þér ekki heimilt að óska eftir, selja, auglýsa eða kynna nokkra vöru eða þjónustu, hvort sem er gegn gjaldi eður ei, né senda inn beiðni um þátttöku í góðgerðarmálum, undirskriftasöfnunum eða viðskiptatækifærum (þar með talið atvinnutilboðum).
 • Þér er ekki heimilt að afrita eða nota persónu- eða samskiptaupplýsingar um aðra notendur án þeirra leyfis. Óumbeðin samskipti við aðila sem þú hefur fengið upplýsingar um á vefsvæði Meniga.is eru bönnuð.

11. Takmörkun ábyrgðar

Meniga ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði fyrirtækisins eða notanda eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því að upplýsingar séu ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni. Meniga ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við vefsvæði Meniga, vafra eða stýrikerfi notanda eða tölvukerfi Meniga, eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda því að aðgerðir í Meniga.is geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en til var ætlast s.s. vegna tæknibilana, villna í gögnum eða truflana í rekstri tölvukerfa. Meniga ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda eða annars aðila með eða án umboðs notanda. Meniga ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til rangra aðgerða notanda eða annars aðila. Meniga ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. Enn fremur ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure).

12. Þjónusta Meniga er ekki formleg fjármála eða skattaleg ráðgjöf

Notandi gerir sér grein fyrir því að vefur Meniga er eingöngu upplýsinga- og greiningarþjónusta í þeim skilningi að notendur vefsins geta ekki framkvæmt millifærslur, greiðslur eða aðrar fjárhagslegar aðgerðir. Þjónustan er einvörðungu ætluð til upplýsinga til þess að aðstoða fólk við að skipuleggja heimilisfjármálin í almennum skilningi og felur hvorki í sér lögfræðilega né skattalega ráðgjöf eða aðra formlega ráðgjöf sem felur í sér lagalegt samband ráðgjafa og þiggjanda ráðgjafar. Þínir persónulegu fjármálahagir eru einstakir og efni, upplýsingar og virkni á Meniga.is gætu hugsanlega ekki átt við þínar aðstæður.

13. Lokun aðgangs og gildistími þessa skilmála

Þessir skilmálar gilda á meðan þú notar Meniga.is og þangað til aðgangi þínum að vefsvæði Meniga er lokað af þér eða Meniga. Þú getur lokað aðgangi þínum að Meniga á vefsvæði Meniga. Þegar þú lokar aðgangi þínum eyðir Meniga öllum þínum gögnum og upplýsingum. Þínar upplýsingar kunna þó að vera til í dulkóðuðum afritum af gagnagrunni Meniga í allt að tvo mánuði eftir að þú lokar aðgangi þínum.

Meniga er hvenær sem er, og án fyrirvara, einhliða heimilt að loka aðgangi þínum að Meniga með því að senda þér tilkynningu á netfangið sem þú gafst upp við skráningu. T.d. ef þú verður uppvís að misnotkun eða hefur brotið í bága við eitthvert ákvæði þessara skilmála eða ef þú hefur hegðað þér á þann hátt að augljóst sé að þú ætlir ekki eða getir ekki uppfyllt ákvæði þessa skilmála.

14. Breytingar á skilmálum

Meniga kann að breyta þessum skilmálum. Komi til breytinga verða allar breytingar við þessa skilmála aðgengilegar á vefsvæði Meniga.is og verða jafnframt tilkynntar þér í tölvupósti eða á áberandi hátt á vefsvæði Meniga. Komi til breytinga verður þér, næst þegar þú ferð inn á vefsvæði Meniga, gefinn kostur á að samþykkja breytta skilmála. Ef þú kýst að samþykkja ekki breytta skilmála munt þú ekki lengur geta nálgast þjónustu Meniga og verður þér jafnframt gefin(n) kostur á að loka aðgangi þínum að Meniga sem hefur í för með sér að öllum gögnum og upplýsingum um þig verður eytt sbr. 13. gr. þessara skilmála.

15. Varnarþing, ágreiningur aðila og almenn ákvæði

Skilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna. Þú samþykkir að ef Meniga nýtir sér ekki einhvern rétt sinn sem hlýst af þessum skilmálum að þá skal ekki túlka það sem afsal þess réttar. Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Breytingar á skipulagi Meniga hf.

28.12.2015

Vegna aukinna umsvifa erlendis hefur Meniga ákveðið að ráðast í skipulagsbreytingar sem fela í sér að nýtt félag, Meniga Iceland ehf. (kt. 571215–0200), hefur verið stofnað um innlenda starfsemi Meniga og tekur nýja félagið yfir alla starfsemi Meniga hf. (kt. 5003090160; áður Meniga ehf.) á Íslandi frá og með 1.1.2016 og mun allt starfsfólk Meniga hf. flytjast til Meniga Iceland ehf. á sama tíma.

Þessari skipulagsbreytingu fylgja engar aðrar breytingar á rekstri, notkunarskilmálum eða þjónstu Meniga á Íslandi. Eina breytingin er sú að frá og með 1.1.2016 færist starfsemin yfir til Meniga Iceland ehf.

Sjá nánar

Skilmálar vegna endurgreiðslu afsláttar

1. Aðild

Skilmálar þessir gilda um endurgreiðslu til notenda vegna afsláttar samkvæmt tilboðum sem notendum standa til boða. Endurgreiðslutilboð ehf., kt. 621014-0130 (hér eftir „Endurgreiðslutilboð ehf.“), sem er í 100% eigu Meniga Iceland ehf., kt. 571215-0200 (hér eftir nefnt Meniga), sér um að afla tilboða og kynna fyrir notendum í kerfi Meniga og eiga skilmálar þessir við um réttarsamband notenda Meniga og Endurgreiðslutilboð ehf. Með því að staðfesta skilmála þessa staðfesta notendur bæði að þeir skilji og samþykki þessa skilmála og réttarsamband sitt við Endurgreiðslutilboð ehf. Jafnframt veitir notandi Endurgreiðslutilboð ehf. fulla heimild til að fá þær upplýsingar og gögn sem þörf er á úr kerfi Meniga til þess að unnt sé að ljúka vinnslu við tilboðin, þó ávallt innan þeirra marka sem almennar skilmálar og öryggis- og persónuverndarstefna Meniga hverju sinni setja.

2. Endurgreiðslur vegna afsláttar

Endurgreiðslutilboð ehf. mun af og til bjóða notendum upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki og söluaðilar bjóða notendum afslátt ef verslað er á tilteknu tímabili, að því gefnu að notandi greiði með greiðslukorti sem tengt er við kerfi Meniga. Tilboðin og þar með afslátturinn virkjast ekki ef notandi greiðir með öðrum hætti, t.d. reiðufé. Tilboðin munu birtast í kerfi Meniga.

3. Staðfesting á þátttöku

Notendur skulu almennt staðfesta þátttöku í tilboðum inn á vef Meniga, en í ákveðnum tilfellum er staðfestingar ekki krafist og þátttaka getur verið sjálfvirk. Í þeim tilfellum þar sem krafist er staðfestingar og slík staðfesting liggur ekki fyrir verður tilboðið ekki virkt gagnvart viðkomandi notanda. Eftir að notandi hefur staðfest skilmála þessa gilda þeir um öll tilboð sem notendur taka þátt í.

4. Tilboð til ákveðinna hópa

Notendur gera sér grein fyrir því að tilboðum kann að vera eingöngu beint til tiltekinna hópa af notendum, sem valdir eru á ópersónugreinanlegan hátt eftir tilteknum breytum, t.a.m. lýðfræðilegum, búsetu, neysluhegðun, kyni eða öðrum flokkum. Slík tilboð taka þá eingöngu til viðkomandi hópa en ekki annarra.

5. Fyrirkomulag

Notandi greiðir fullt verð fyrir vöru og/eða þjónustu til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt hverju tilboði. Sá afsláttur sem fyrirtækið greiðir verður greiddur til Endurgreiðslutilboð ehf. sem tekur við greiðslunni fyrir hönd notanda og greiðir svo til notanda í samræmi við ákvæði skilmála þessara.

Þegar Endurgreiðslutilboð ehf. hefur borist tilkynning um færslu notenda hjá fyrirtæki á tímabili þegar tilboð var í gangi tilkynnir Endurgreiðslutilboð ehf. viðkomandi notanda það. Slík tilkynning jafngildir þó ekki að endurgreiðsla hafi borist. Endurgreiðslutilboð ehf. sendir viðkomandi fyrirtæki greiðslutilmæli vegna endurgreiðslu 1. hvers mánaðar eftir að tilboð fór fram. Notandi getur ávallt séð heildarstöðu sína hverju sinni inni í kerfi Meniga. Um útgreiðslu fjár vísast til 8. gr. skilmála þessara.

Notandi gerir sér grein fyrir því að endurgreiðsla til hans berst ekki fyrr en Endurgreiðslutilboð ehf. hefur sent út greiðslutilmæli 1. hvers mánaðar eftir að gildistími hvers tilboðs klárast og ennfremur að greiðsla til notanda berst ekki fyrr en söluaðili hefur greitt til Endurgreiðslutilboð ehf, sbr. 8. gr. skilmálanna.

6. Varðveisla fjár

Þær greiðslur sem Endurgreiðslutilboð ehf. tekur við fyrir hönd notenda verða varðveittar aðgreint frá öðrum fjármunum félagsins á sérstökum reikningi, sem getur verið fjárvörslureikningur, sérstakur bankareikningur eða annars konar sambærilegur reikningur á vegum Endurgreiðslutilboð ehf. Endurgreiðslutilboð ehf. áskilur sér allan rétt til þess að breyta um reikning eða reikningsform vegna varðveislu fjárins. Þá hefur Endurgreiðslutilboð ehf. heimild til þess að fela fjármálafyrirtæki eða aðila sem hefur leyfi til greiðsluþjónustu samkvæmt lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, alla umsýslu viðkomandi bankareikningsins og sjá um endurgreiðslu til notenda.

7. Afmörkun afsláttar

Notendum verður kynnt í hverju og einu tilboði með hvaða hætti afslátturinn sem kemur til endurgreiðslu ákvarðast. Sem dæmi getur afslátturinn verið ákveðið hlutfall af kaupverði, eða föst upphæð. Ef notanda stendur til boða fleiri en eitt tilboð frá sama söluaðila á sama tíma þá gildir sá afsláttur sem er hagstæðastur fyrir notanda hverju sinni en safnast ekki upp á milli tilboða hjá sama söluaðila.

8. Greiðslur til notenda

Líkt og rakið er í 5. gr. skilmálanna þá sendir Endurgreiðslutilboð ehf. greiðslutilmæli til þeirra fyrirtækja, sem hafa tekið þátt í tilboði, 1. hvers mánaðar eftir að tilboði lýkur. Það fé, sem Endurgreiðslutilboð ehf. hefur móttekið fyrir hönd notenda sinna, verður greitt til hvers notenda 18. þess mánaðar. Beri 18. upp um helgi verður greitt út fyrsta virka dag á eftir. Greiðslan berst inn á reikning sem notandi tilgreinir í kerfi Meniga. Notandi ber ábyrgð á því að tilgreina réttan reikning og gerir sér grein fyrir því að Meniga getur ekki staðreynt hvort reikningur sé sannarlega í eigu hvers og eins notanda. Ennfremur getur Endurgreiðslutilboð ehf. ekki afturkallað greiðslu sem greidd hefur verið inn á reikning sem tilgreindur hefur verið af notanda. Greiðsla fer fram sjálfkrafa og ekki þarf sérstaka beiðni notanda til þess. Notendur geta ekki fengið féð greitt út á öðrum tíma eða á annan hátt.

Takist endurgreiðsla ekki á tilsettum tíma, s.s. vegna þess að bankareikningur er ekki lengur til staðar, mun Endurgreiðslutilboð ehf. leita leiða til þess að hafa upp á notandanum með öðrum hætti og greiða féð til viðkomandi. Gangi það ekki eftir mun Endurgreiðslutilboð ehf. varðveita féð eins og almennar reglur um fyrningu segja til um.

9. Vanskil söluaðila

Notendur gera sér fulla grein fyrir því að endurgreiðslur til sín eru háðar því að Endurgreiðslutilboð ehf. fái greitt frá viðkomandi söluaðila. Endurgreiðslutilboð ehf. tekur ekki ábyrgð á því að greiðslur frá söluaðila berist og á notandi ekki neina kröfu á Endurgreiðslutilboð ehf. í slíkum tilfellum. Endurgreiðslutilboð ehf. mun hins vegar beita öllum tiltækum leiðum, sem líklegar eru til árangurs, til þess að innheimta féð frá viðkomandi söluaðila komi til vanskila og upplýsa viðkomandi notendur um framgang mála í slíkum tilfellum, eins og unnt er.

Kjósi Endurgreiðslutilboð ehf., þótt því sé það ekki skylt, að greiða til notenda kröfu vegna endurgreiðslu sem er í vanskilum hjá fyrirtæki, þá staðfestir notandi að Endurgreiðslutilboð ehf. leysi til sín kröfuna á hendur söluaðila og að notandi framselji Endurgreiðslutilboð ehf. kröfu sína á hendur viðkomandi söluaðila.

10. Umboð

Með því að staðfesta skilmála þessa veitir notandi Endurgreiðslutilboð ehf. fullt og ótakmarkað umboð til þess að móttaka og varðveita fyrir sína hönd endurgreiðslur frá fyrirtækjum vegna tilboða og felst að öðru leyti á skilmála þessa. Ennfremur að Endurgreiðslutilboð ehf. hefur heimild til þess að koma fram fyrir hönd notanda gagnvart fyrirtækjum sem taka þátt í tilboðum á vegum Endurgreiðslutilboð ehf. og sækja það fé sem notandi á inni hjá fyrirtækinu komi til vanskila, sbr. 9. gr. skilmála þessara.

Notandi gerir sér grein fyrir því að Endurgreiðslutilboð ehf. varðveitir það fé sem fæst endurgreitt fyrir sína hönd þar til það er greitt út til notanda í samræmi við ákvæði þessara skilmála. Notandi gerir sér grein fyrir og samþykkir að ekki leggjast ofan á þá fjárhæð sem hann greidda út frá Endurgreiðslutilboð ehf. vextir eða verðbætur og á notandi ekki kröfu á hendur Endurgreiðslutilboð ehf. af þeim sökum.

11. Breytingar á skilmálum

Meniga er þjónusta sem er í stöðugri þróun. Endurgreiðslutilboð ehf. áskilur sér því rétt að breyta ákvæðum þessara skilmála, enda verði notendum þjónustunnar tilkynnt í tölvupósti um allar breytingar á viðeigandi hátt með 10 daga fyrirvara. Breytingar þessar geta varðað vörur sem eru notaðar og virkni þeirra. Noti notandi þjónustuna að 10 daga fyrirvaranum liðnum verður litið svo á að hann hafi samþykkt skilmálana í breyttri mynd. Sætti notandi sig ekki við skilmálana eftir breytingu skal hann hætta notkun þjónustunnar án tafar og skrá sig úr henni á vefsíðunni meniga.is.

Fannstu það sem þú varst að leita að?

Hafðu samband