Að þekkja sinn markað

Í lok árs er gott að líta yfir farinn veg og sjá hvað gekk vel og hvar er hægt að gera betur. Hér er stutt yfirferð á þeim upplýsingum sem fyrirtæki geta nálgast í Ársskýrslu Markaðsvaktar Meniga og hvernig okkar viðskiptavinir hafa nýtt þær upplýsingar sem þar er að finna.

Þegar við hjá Meniga þróuðum Ársskýrslu Markaðsvaktarinnar var grunnhugmyndin að útbúa skýrslu sem myndi veita fyrirtækjum aðgengi að einstökum gögnum, en þó í einföldu og upplýsandi yfirliti til að meta stöðu sína á markaði. Áhersla var lögð á að Ársskýrslan hefði hagnýtt notagildi og því voru efnistök og framsetning hennar unnin í samstarfi við fyrirtæki í mismunandi atvinnugeirum.

Áætlanir fyrirtækja byggja venjulega á samanburði við rekstrarniðurstöðu fyrra árs ásamt væntingum fyrir komandi ár, en þessi innri samanburður segir þó bara hálfa söguna. Upplýst áætlunargerð um markmið næsta árs getur ekki aðeins byggt á innri gögnum, heldur þarf einnig þarf að taka mið af því hvernig markaðurinn sem fyrirtækið starfar á þróaðist yfir sama tímabil. Hingað til hefur reynst erfitt fyrir fyrirtæki á einstaklingsmarkaði að nálgast marktæk gögn um markaðinn, en nú er það ekki lengur vandamál.

Hér að neðan má finna upplýsingar um hvernig mismunandi hlutar Ársskýrslu Markaðsvaktarinnar hafa nýst okkar viðskiptavinum og geta vonandi nýst þínu fyrirtæki í framtíðinni. Neðst má svo finna upplýsingar um úrtak og bakgrunnsbreytur um Meniga hagkerfið og marktækni gagnanna.

Markaðshlutdeild af sölu
Markaðshlutdeild af sölu

Markaðshlutdeild

Markaðshlutdeild er sá hluti markaðsgreininga sem fyrirtæki líta venjulega fyrst til enda sýnir hún stöðu fyrirtækisins á markaðnum og hvort tekjuþróunin hafi verið í línu við markaðinn, fram úr honum eða dregist aftur úr. Fyrirtæki sem nær 20% tekjuaukningu yfir árið á meðan markaðurinn vex að meðaltali um 10% er að gera frábæra hluti. En hvað með fyrirtæki sem náði 10% tekjuaukningu á meðan markaðurinn óx um 20% að meðaltali?

Með því að skoða 12 mánaða þróun markaðshlutdeildar er einnig hægt að glöggva sig á því hverju markaðsaðgerðir, bæði eigin og annarra, hafa raunverulega skilað. Hafði t.d. stíf auglýsingakeyrsla keppinautar í apríl áhrif á markaðshlutdeild þíns fyrirtækis?

Sala og hlutfallsbreyting milli tímabila

Velta á markaði

Hér er fyrst og fremst um að ræða stuðning við markaðshlutdeildarupplýsingar. Ef línuritið yfir markaðshlutdeildina sýnir að þitt fyrirtæki átti sinn besta mánuð gagnvart markaðnum í júlí, þá er einnig mikilvægt að vita hvernig júlí kom út fyrir markaðinn í heild sinni. Þannig væri mjög jákvætt ef hæsta markaðshlutdeild þíns fyrirtækis yfir árið væri í þeim mánuði sem hæst velta var á markaðnum, þ.e. þín stærsta sneið yfir árið var af stærstu kökunni sem var í boði á árinu. Að sama skapi geta leynst tækifæri í minni mánuðum ársins því það gefur til kynna vannýtt tækifæri til markaðssóknar. Dæmi um afskaplega áhugavert samspil markasðhlutdeildar og veltu á markaði má sjá í þessari grein um innreið Boozt.com á íslenskan markað í vor.

Fjöldi viðskiptavina

Afskaplega einföld en gagnleg tölfræði. Hér er mikilvægt að horfa ekki einungis í eigin viðskiptavinafjölda heldur hlutfallið af heildarviðskiptavinafjöldanum á markaðnum. Ef 10% viðskiptavina á þínum markaði versluðu við fyrirtækið undanfarið ár þýðir það líka að 90% viðskiptavina, sem versluðu á þessum markaði, gerðu það ekki hjá þínu fyrirtæki. Þessar upplýsingar gefa því fyrirtækjum forsendur til að meta væntan ávinning af aukinni markaðsetningu og/eða af því að tryggja hátt og gott þjónustustig ef hlutfallið er þeim mun hærra.

Meðalfærsluupphæð

Það er flestum fyrirtækjum nokkuð hægur leikur að skoða markaðinn og sjá hvort verðlagning sé í samræmi við það sem gengur og gerist. Sú upphæð sem viðskiptavinir greiða hjá fyrirtæki í hverri viðskiptafærslu gefur þó dýpri upplýsingar en aðeins verðlagningu. Meðalfærsla sýnir hversu vel fyrirtækjum gengur að auka virði hvers viðskiptavinar. Ef keppinautur með sambærilegt vöruframboð er með 20% hærri meðalfærslu en þitt fyrirtæki væri þannig ástæða til að íhuga framsetningu hvoru tveggja í verslun og vefverslun. Ástæðan gæti einnig legið í staðsetningu fyrirækja innan sambærilegs markaðar, þ.e. annað fyrirtækið leggur áherslu á sölu færri eininga á hærra verði á meðan hitt fyrirtækið leggur áherslu á magn á lægra verði.

Tíðni viðskipta

Tíðni viðskipta helst í hönd við fjölda viðskiptavina. Það er þó mikilvægt að skoða þetta hlutfall í samanburði við keppinauta með sambærilegt vöru- og/eða þjónustuframboð. Hærri tíðni viðskipta gefur til kynna meiri ánægju viðskiptavina með vöru og/eða þjónustu.

Viðskiptatryggð

Við skilgreinum viðskiptatryggð á afskaplega einfaldan en áhrifamikinn hátt. Hafa þeir viðskiptavinir sem versluðu við þitt fyrirtæki síðustu 6 mánuði síðasta árs verslað aftur hjá þínu fyrirtæki sömu sex mánuði þessa árs? Í þessum hluta skýrslunnar geta fyrirtæki því séð hversu vel hefur gengið að viðhalda viðskiptasamböndum og sækja nýja viðskiptavini, auk þess að sjá sambærilegar upplýsingar fyrir keppinauta á sama markaði.

Markaðsvakt Meniga gefur fyrirtækjum á einstaklingsmarkaði möguleika á að rýna í markaðsstöðu sína gagnvart samkeppnisaðilum. Markaðsvaktin byggir á ópersónugreinanlegum raungögnum um kauphegðun yfir 38.500 einstaklinga á Íslandi og nýtir eingöngu kortafærslur frá einstaklingum með tveggja ára samfellda viðskiptasögu. Þannig tryggir Meniga gæði markaðsgagna.

Gögnin í Markaðsvakt Meniga byggja á kortafærslum íslenskra debet- og kreditkorta og fela því ekki í sér færslur erlendra korta eða peningaviðskipta.

Hafa samband